Einhleypum konum fjölgar

Aníka Rós Pálsdóttir er einhleyp.
Aníka Rós Pálsdóttir er einhleyp. mbl.is
Síðustu árin hefur einhleypum konum fjölgað um allan heim. Það sama á við á Íslandi, en þar hefur einhleypum konum fjölgað ár frá ári.
Stór hópur íslenskra kvenna er hvorki skráður í sambúð né hjónaband og hlutfallslega hefur lítillega fjölgað í hópnum síðustu árin. 47 prósent kvenna á aldrinum 20-39 ára eru einhleypar samkvæmt Hagstofu Íslands, hvorki skráðar í sambúð né hjónaband. Stærstur hluti þessa hóps hefur aldrei gengið að altarinu eða um 94%. Árið 1998 var þetta sama hlutfall einhleypra kvenna 39%.
Aníka Rós Pálsdóttir er barnlaus og hefur aldrei verið í sambúð. Hún segir það misskilning að einhleypir séu í stöðugri leit að maka þótt lífsförunautur gæti verið góð viðbót – sé það rétta manneskjan.

Nýlega nýtti Aníka sér netið til frekari verka í þágu kvenna sem eru einhleypar með því að stofna hópinn Einstakar konur. „Einhleypar konur upplifa það stundum að ef þær eiga bara vini sem eru í samböndum getur verið erfitt að fá einhvern með sér í að gera eitthvað í frítímanum því margir eiga nóg með sitt og sínar fjölskyldur. Hópurinn er hugsaður sem vettvangur fyrir konur að eignast vinkonur, ekki bara einhleypar konur reyndar því konur í samböndum geta líka verið einangraðar. Við erum nýfarnar að hittast.“

Aníka ítrekar að það sé misskilningur að einhleypir séu stöðugt að leita. „Mann vantar ekki endilega hinn helminginn. Hann getur verið góð viðbót en líf mitt stendur ekki og fellur með því hvort ég á maka. Ég er hamingjusöm og tel mig eiga gott líf.“

Hjónaskilnuðum fjölgar ekki en giftingaaldur hækkar

Einhleypar konur eru samkvæmt Hagstofu Íslands þær sem hvorki eru skráðar í sambúð né hjónaband. Víst má því telja að einhver hluti þessa hóps eigi í langtímasambandi þótt ástin hafi ekki verið skráð niður með formlegum hætti.

Ekki hefur fjölgað hlutfallslega í hópi einhleypra vegna fjölda hjónaskilnaða því skilnaðartíðni hefur lítið breyst síðustu 25 árin. Hins vegar hefur meðalgiftingaraldur hækkað.

Í Bandaríkjunum og Bretlandi hefur einhleypum konum fjölgað mikið og töluvert verið skrifað um að ein helsta ástæðan sé sú að konur séu sjálfstæðari og vilji heldur engan en þann næstbesta. Fjöldi kvenna velji sér að vera einhleypar til skemmri eða lengri tíma, njóta stefnumótamenningar og skammtímasambanda og að máta sig við nokkra kærasta, nú eða kærustur, fram eftir aldri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert