Ókeypis fyrir börn á snjódeginum

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Mikið verður um að vera á skíðasvæðum um norðanvert landið í dag, en í dag er alþjóðlegur snjódagur. Ekki verður þó hægt að hafa opið í Bláfjöllum í dag, en þar er mjög hvasst.

Alþjóðaskíðasambandið FIS stendur fyrir sérstökum degi „World Snow Day“ í dag þar sem aðildarþjóðirnar eru hvattar til að hvetja börn til skíðaiðkunar.

Opið er í Hlíðarfjalli við Akureyri í dag frá kl. 10-16. Þar verður frítt fyrir börn í fjallið og boðið upp á fjölbreytta dagskrá.

Skíðasvæðið í Stafdal í Seyðisfirði verður opið frá kl 10:00 til 16:00 í dag. Í tilefni af snjódeginum verður frítt í lyftur fyrir grunnskólanema. Lagðar hafa verið brautir fyrir gesti og boðið verður upp á tónlist í fjallinu.

Opið frá kl. 10 til 16 í skíðamiðstöð Austurlands í Oddsskarði. Ókeypis verður í fjallið í dag.

Á Ísafirði verður frítt inn á skíðasvæðið og 25% afsláttur á skíðaleigu. Þjálfarar og æfingalið Skíðafélagsins ætla að bjóða þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref ókeypis aðstoð.

Skíðasvæðið í Tindastóli verður opið frá kl 11 til 16 í dag. Það er hið besta veður og færi gott. Krakkar undir 18 ára aldri frá frítt á skíði.

Í dag verður opið á skíðasvæðinu í Fjallabyggð frá kl 10-16. Frítt er fyrir börn upp að 18 ára og 20% afsláttur af búnaði. 

Skíðafélag Strandamanna hvetur fólk til að fjölmenna á skíðasvæðið í Selárdal við Steingrímsfjörð í dag, þar sem dagskráin hefst kl. 13:00 með skíðagöngumóti með frjálsri aðferð.

Opið verður á skíðasvæði Dalvíkinga. Þar hefst dagskráin kl. 12:00 og stendur til kl:15:00. Frítt er í fjallið fyrir 18 ára og yngri.

Skíðasvæðið í Tindaöxl í Ólafsfirði verður opið í dag kl. 13:00-17:00. Í tilefni snjódagsins verður frítt fyrir alla í lyftuna. Veitingar eru í boði Skíðafélags Ólafsfjarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert