Læknafélag Íslands dæmt til að greiða miskabætur

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði.
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði.

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Læknafélag Íslands og ritstjóra Læknablaðsins til að greiða karlmanni 300 þúsund krónur í miskabætur fyrir að kafli úr sjúkraskrá um hann birtist í blaðinu haustið 2011.

Kaflinn úr sjúkraskránni birtist í úrskurði siðanefndar Læknafélagsins í deilu tveggja lækna. Umræddur maður hafði leitað til þeirra beggja eftir að hann brotnaði á hendi í janúar 2011. Nafn mannsins var ekki birt í úrskurðinum en héraðsdómur tók undir með honum, að margir, sem eitthvað þekktu til hans, hefðu getað getið sér til hver hann væri.

Úrskurðurinn birtist á vef Læknablaðsins og í kjölfarið var fjallað um hann í fjölmiðlum. Maðurinn kom einnig fram í fjölmiðlum og veitti viðtöl undir nafni og höfðaði síðan skaðabótamál. Taldi hann Læknafélagið og ritstjórann hafa brotið alvarlega gegn rétti hans með ólöglegri vinnslu, meðferð og opinberri birtingu viðkvæmra persónuupplýsinga um hann. Hefði það haft þær afleiðingar, að upplýsingar úr sjúkraskrá hans, sem lög mæli fyrir að skuli fara leynt, væru nú á hvers manns vitorði.

Læknafélagið og ritstjórinn kröfðust sýknu og sögðu að kaflinn úr sjúkraskránni hefði birst í siðanefndarúrskurðinum fyrir gáleysi og slysni og gæti ekki talist ólögmæt meingerð. Þá hefði sjúklingurinn sjálfur komið fram í fjölmiðlum í kjölfarið og fjallað um málið.

Héraðsdómur féllst hins vegar á það með manninum, að Læknafélagið og Læknablaðið hefðu birt um hann viðkvæmar persónuupplýsingar sem ættu lögum samkvæmt að fara leynt. Ætti maðurinn því rétt á miskabótum. Málskostnaður var felldur niður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert