Segir engar breytingar á RIFF

Merki RIFF 2012.
Merki RIFF 2012.

Nemendur í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands hafa undanfarna daga hvatt fólk til að skrifa undir stuðningsyfirlýsingu við kvikmyndahátíðina RIFF, en þeir telja að óvissa ríki um framtíð hennar. Svo er ekki að sögn Hrannar Marínósdóttur, stjórnanda RIFF sem segist ekki vita til þess að neinar breytingar séu að verða á hátíðinni.

„Nei, nei. Alls ekki,“ segir Hrönn spurð að því hvort óvissa sé um framtíð RIFF.

Samkvæmt frétt á vefsíðunni Nörd Norðursins segir að ákvörðun um framtíð RIFF hafi átt að taka síðastliðinn mánudag og að undirskriftum verði áfram safnað á meðan þessi óvissa ríki.  „Ég veit ekki til þess að RIFF sé að hætta,“ segir Hrönn og segist ekkert frekar hafa um málið að segja.

RIFF kvikmyndahátíðin hefur verið haldin níu sinnum og á vefsíðu hennar segir að kvikmyndaáhugafólk megi búast við glæsilegri kvikmyndaveislu á þeirri tíundu sem haldin verður í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert