Ólafur Ragnar: Evrópa er vandamálið

Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum.
Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði á Alþjóðaefnahagsþinginu í Davos í dag að fiskveiðistefna Evrópusambandsins væri „algjörlega misheppnuð“ enda séu um 75% af fiskistofnum Evrópu í hættu. 

Á ráðstefnunni í Sviss eru staddir helstu stjórnmálaleiðtogar og áhrifamenn úr viðskiptalífinu og í dag var m.a. rætt um ástand fiskistofna sjávar. „Evrópa er vandamálið,“ hefur BBC eftir Ólafi Ragnari. „Það er þversagnakennt að Evrópumenn líti á sjálfa sig sem upplýstustu stefnumótendur í heimi,“ bætti hann við.

Í frétt BBC er jafnframt haft eftir Frans Muller, framkvæmdastjóra verslunarkeðjunnar Metro sem mun vera langstærsti fiskseljandi Evrópu, að á heimsvísu séu um 20% fiskstofna í útrýmingarhættu eða mjög slæmu ástandi.

Yfirmaður Scripps-sjávarrannsóknarstofnunarinnar við Kaliforníuháskóla segir sömuleiðis að ástand sjávar sé grafalvarlegt, ekki aðeins í Evrópu. „Við höfum sagt fiskisstofnunum stríð á hendur og við höfum sigrað þá,“ hefur BBC eftir honum. „Við höfum ekki efni á því að halda þessu stríði til streitu. Við verðum að draga okkur í hlé.“

„Risastórar marglyttur“ það eina sem eftir verður

Ólafur Ragnar sagði að verði ekkert gert til að snúa við hruninu í evrópskum fiskistofnum verði heimshöfin gjörsneydd öllu lífi líkt og eyðimörk. „Það eina sem mun fljóta um verða risastórar marglyttur,“ sagði forsetinn. „Það er kominn tími til að við horfum í spegil. Er þetta efst á forgangslista Evrópu? Nei. Er þetta á dagskrá hjá leiðtogum Evrópu sem hittast nokkrum sinnum á ári til að funda um bankakreppuna? Nei.“

Að sögn BBC fullyrti forseti Íslands á ráðstefnunni í dag að aðeins tvö Evrópulönd hefðu  stýrt fiskveiðum sínum með sjálfbærum hætti, þ.e. Ísland og Noregur. Benti hann á að hvorugt landið ætti aðild að Evrópusambandinu.

Hann sagði að þrátt fyrir allt væri þó ástæða til bjartsýni um framtíð hafsins og nefndi í því samhengi að með hjálp nútímatækni væri í auknum mæli hægt að merkja fisk sem veiddur væri með sjálfbærum veiðum þannig að neytendur geti með snjallsímum komist að því hvaðan fiskurinn sem þeir kaupi sé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert