Vildi fara með málið fyrir dóm

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætis- og fjármálaráðherra.
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætis- og fjármálaráðherra. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Við vorum nokkur sem vildum strax frá upphafi koma þessu máli fyrir dómstóla. En við það var ekki komandi og þess vegna var ákveðið að reyna að semja,“ segir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, um niðurstöðu Icesave-málsins. Hann segir að mikið sé hægt að læra af málinu, ekki síst fyrir stjórnmálamenn og segir kaldhæðnislegt að þeir sem nú vilji ekki leita sökudólga hafi ákært hann fyrir vanrækslu varðandi Icesave-reikningana í Bretlandi.

„Þetta er mikill siðferðilegur sigur. Margir óttuðust að dómstóllinn myndi gæta hagsmuna Evrópusambandsins og þeirra aðila sem höfðuðu málið. En það reyndist ekki vera, heldur byggist þetta, að því að mér sýnist, á hreinum lagalegum röksemdum,“ segir Geir. „Auðvitað skiptir niðurstaðan líka fjárhagslegu máli fyrir ríkissjóð, þó að ekki sé hægt að slá á það núna hversu miklu.“

Þrotabúið gat staðið undir greiðslum strax árið 2008

Hann rifjar upp ályktun um málið sem var samþykkt á Alþingi í byrjun desember 2008.

„Í nefndaráliti meirihlutans segir eitthvað á þá leið að við þessar aðstæður sé rétt að leita að pólitískri niðurstöðu með samningaviðræðum. En þar segir líka að ekki sé hægt að gefa sér það fyrirfram að samningar takist, sem þýðir að menn hefðu ekki látið bjóða sér hvaða úrslitakosti sem væru. Ég tel að það hafi orðið frávik frá þessu með stjórnarskiptunum 2009 og síðan tekur við saga sem allir þekkja,“ segir Geir. 

„Þá strax, árið 2008, voru góðar horfur á því að þrotabú bankans myndi geta greitt þetta. Nú hefur það komið í ljós. Þrotabúið er mjög öflugt og getur staðið undir þessum greiðslum og meira til. Þessu gerðu menn sér grein fyrir árið 2008. Þannig að það er algjör óskammfeilni að halda því fram, eins og sumir eru að gera nú; að sú hugmynd að láta þrotabúið borga þetta hafi fyrst komið fram með samningunum vorið 2009.“

Hvers vegna var ekki farið með málið fyrir dóm á þessum tíma? „Við gátum ekki gert það. Þeir, sem gerðu kröfur á okkur, hefðu þurft að eiga frumkvæðið að því. En hvers vegna þeir gerðu það ekki þá, er erfitt að segja til um. En svarið við því kom kannski í dag.“

Vildu fara fyrir gerðardóm

Á fundi í ráðherraráði ESB í byrjun nóvember 2008, skipuðum fjármálaráðherrum og ráðherrum efnahagsmála, var gerð tilraun til þess að ná samkomulagi um að leggja Icesave-málið í gerðardóm. Umboð dómsins til að skilgreinar skuldbindingar Íslands var mjög víðtækt og niðurstaðan átti að vera bindandi. Það var því mat ríkisstjórnar Íslands að Ísland gæti ekki fallist á þessa málsmeðferð en fulltrúar hinna landanna komu þrátt fyrir það saman og gáfu samdóma álit um að íslenska ríkinu bæri að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar ef eignir tryggingasjóðs innistæðueigenda dygðu ekki til. 

Íslensk stjórnvöld samþykktu ekki þessa niðurstöðu og Geir segir þessa málsmeðferð síður en svo hafa verið réttláta.

„Við vildum fara með málið fyrir alvöru gerðardóm. En það sem menn héldu að væri gerðardómur, þegar fjármálaráðherrann okkar þáverandi var króaður af á fundi evrópskra fjármálaráðherra í nóvember 2008, reyndist vera allt annað; fyrirfram gefin niðurstaða sem við ákváðum að taka ekki mark á.“

Bentu á mig sem sökudólg

Í máli Alþingis gegn Geir fyrir Landsdómi var honum í einum ákæruliðnum gefið að sök að hafa ekki fullvissað sig um að unnið væri að því að færa Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag. 

„Það er kaldhæðnislegt að þeir, sem stóðu að þeirri ákæru eða komu í veg fyrir að hún yrði afturkölluð, eru núna að tala um að nú eigi ekki að benda á sökudólga. Þetta fólk benti á mig sem sökudólg, en Landsdómur hafnaði því eins og öllum þeim atriðum sem sneru beint að bankahruninu. Þannig að ég gef nú ekki mikið fyrir þessi orð,“ segir Geir.

Gladdist mjög í morgun

Geir segist hafa glaðst mjög er hann heyrði niðurstöðu dómsins í morgun. „Jú, það má nærri geta að ég varð glaður. Þetta var sérstaklega ánægjulegt og ljóst að barátta fjölda manna skilaði sér með þessum árangri.  Ég tel líka að ákvarðanir forseta Íslands, inngrip hans í tvígang í þetta mál, þær sé ekki hægt að gagnrýna. Það hefur komið í ljós núna.“

Spurður að því hvort hann telji að málinu sé nú lokið kveður Geir já við. „Ég held það. Auðvitað veit maður aldrei hvað fólki dettur í hug. En ég get ekki séð annað en að þetta sé búið og að við getum mjög vel við unað. Hvort þetta hefur síðan áhrif á bankamál og regluverkið í Evrópu, það treysti ég mér ekki til að segja til um. Málið hefur leitt í ljós að regluverkið var mjög gallað og við urðum fyrir barðinu á því, eins og fleiri. Það er verið að vinna að nýju regluverki, það er alveg hugsanlegt að þessi dómur muni hafa efnisleg áhrif á það.“

Betra að byggja upp pólitíska samstöðu

Getum við lært eitthvað af þessu? „Já, ég held að það sé heilmargt af þessu að læra fyrir þá sem starfa í stjórnmálum á Íslandi. Að dómurinn hafi leitt í ljós að í svona stórum málum sé betra að reyna að byggja upp pólitíska samstöðu í kringum hlutina í stað þess að vera í sífelldu stríði með ónot í garð manna sem ekki eru sammála.“

Ýmis samtök og einstaklingar börðust gegn því að Icesave samningarnir, …
Ýmis samtök og einstaklingar börðust gegn því að Icesave samningarnir, sem kosið var um í tvígang, yrðu samþykktir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert