„Þetta hefði bara orðið verra“

Ljóðasetrið á Siglufirði.
Ljóðasetrið á Siglufirði. Ljósmynd/Sigurður Ægisson

Töluvert tjón hefur orðið á þökum nokkuð margra húsa á Siglufirði í miklu hvassviðri sem gengið hefur yfir bæinn undanfarna sólarhringa. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Siglufirði eiga flest húsin það sameiginlegt að vera frekar gömul. Engin slys hafa hins vegar orðið á fólki.

Þannig var þakið á húsnæði Ljóðaseturs Íslands við Túngötu farið að losna í heilu lagi og hefur það líklega gerst síðastliðna nótt að sögn lögreglu. Björgunarsveitarmenn á staðnum hafa haft í mörgu að snúast síðustu daga vegna veðursins og eru enn að. Þá varð húsið að Suðurgötu 46 einnig fyrir töluverðum skemmdum.

Klukkan hálf eitt í nótt fór Sigurður Þór Ómarsson að athuga með ruslatunnurnar við húsið. Fyrir tilviljun leit hann upp og sá þá að hornið á þakinu var farið að lyftast. Húsið er tvíbýli á tveimur hæðum en fólk sem bjó á efri hæðinni var nýlega flutt út. Miklar skemmdir urðu á tveimur herbergjum á efri hæðinni vegna vindhviðanna sem komust þar inn.

„Við kölluðum til björgunarsveitina og þeir festu þetta. Þetta hefði auðvitað bara orðið verra. Meðan það var verið að gera festa þakið fór ég aðeins út til að kíkja á það en forðaði mér síðan inn enda var ég við það að fjúka,“ segir Sigrún Sigmundsdóttir sem býr á neðri hæð hússina í samtali við mbl.is.

Suðurgata 46.
Suðurgata 46. Ljósmynd/Sigurður Ægisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert