Óvissustigi aflétt

Snjómokstur er í fullum gangi um landið austan- og norðaustanvert.
Snjómokstur er í fullum gangi um landið austan- og norðaustanvert. mbl.is/Skapti

Veðurstofa Íslands hefur aflétt óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Austurlandi. Auður Elfa Kjartansdóttir, sem starfar á snjóflóðavakt Veðurstofunnar, segir að óvissustigið hafi verið sett í kjölfar mikillar úrkomu í gær. „Nú er hún að mestu gengin yfir,“ segir hún í samtali við mbl.is.

„Snjór stirðnar hratt og sest. Okkur þykir ekki ástæða til að halda því [óvissustiginu] lengur,“ segir Auður og bætir að menn telji að hættan á að flóð falli á byggð sé yfirstaðin.

Hún tekur hins vegar fram, að mikill snjór sé til fjalla og þar af leiðandi geti verið hætta á að snjóflóð falli þar. Á láglendi var hins vegar nú slydda og rigning á víxl. Mun minni snjór sé í byggð, en hann sé bæði blautur og þungur.

Samkvæmt spá Veðurstofunnar er ekki von á neinni ofankomu á Austurlandi fyrr en um næstu helgi. „Þessi hvellur er búinn og nú er einhver smá éljagangur,“ segir Auður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert