Fær að heita Blær

Blær Bjarkardóttir Rúnarsdóttir fagnar niðurstöðu Héraðsdóms.
Blær Bjarkardóttir Rúnarsdóttir fagnar niðurstöðu Héraðsdóms. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að Stúlka Bjarkard. Rúnarsdóttir, eins og hún er skráð í þjóðskrá, fær að heita Blær, nafninu sem hún var skírð. Dómurinn ógilti úrskurð mannanafnanefndar.

Í málinu var krafist þess að úrskurður mannanafnanefndar um að hún megi ekki heita Blær yrði ógiltur og viðurkennt að hún megi heita Blær. Þá var farið fram á 500 þúsund krónur í miskabætur.

Blæ var gefið nafn við skírnarathöfn í Garðabæ árið 1997 af séra Hans Markúsi Hafsteinssyni. Viku síðar kom hann að máli við foreldrana og tilkynnti þeim að nafnið Blær væri ekki skráð sem kvenmannsnafn í mannanafnaskrá og því hefðu átt sér stað mistök. Nafnið gekk því næst til mannanafnanefndar sem úrskurðaði að hún mætti ekki heita Blær þar sem það er ekki kvenmannsnafn

Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Blævar, benti á það við aðalmeðferð málsins að ein kona beri nafnið í þjóðskrá, Blær Guðmundsdóttir, en það fékkst skráð árið 1973. „Óréttlætið er algjört!“

Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmaður sagði málið einfalt. Mannanafnanefnd hefði  úrskurðað eftir lögum, nafnið var ekki á skrá sem kvenmannsnafn og sé ekki kvenmannsnafn. Það sé karlkynsorð og sem nafn karlkynsnafn. Þá vísaði hann í athugasemdir með frumvarpi til laga um mannanöfn sem samþykkt var árið 1996 en þar er nafnið Blær tekið sem dæmi.

Í lögunum segir að stúlku skuli gefið kvenmannsnafn en dreng karlmannsnafn. Það hafi í för með sér að ekkert eiginnafn geti talist vera bæði karlmanns- og kvenmannsnafn nema hefð sé fyrir því að gefa það báðum kynjum. „Þannig er t.d. óheimilt að gefa drengjum nafnið Ilmur og stúlkum nöfnin Sturla og Blær,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Einar sagði ákvörðun mannanafnanefndar ekki byggða á geðþótta. „Blær er ekki framandi mannsnafn, það er bara karlmannsnafn. Það er málið.“

Frétt mbl.is: Fæ loksins Blæ í vegabréfið

Við aðalmeðferðina. Blær situr á milli kvennanna tveggja.
Við aðalmeðferðina. Blær situr á milli kvennanna tveggja. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert