Forsetinn góður liðsmaður utanríkisþjónustunnar

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég er þeirrar skoðunar að margt það sem forseti Íslands hefur sagt um utanríkismál sé ekki af semingi slegið heldur af djúpu mannviti mælt,“ sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Pétri Blöndal, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, sem innti ráðherrann eftir því hvort málflutningur Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, væri í samræmi við stefnu stjórnvalda.

„Spurningin er hvort þetta fari saman, stefna þessa ötula liðsmanns sem hefur náð meiri dreifingu á boðskap sínum en nokkur annar kjörinn fulltrúi á Íslandi, að ég fullyrði, og stefna ríkisstjórnarinnar. Hvernig líst hæstvirtum utanríkisráðherra á þennan ötula liðsmann í utanríkisþjónustunni? Er þessi stefna í samræmi við utanríkisstefnu Íslands og íslensku ríkisstjórnarinnar? Ég vil spyrja að því,“ sagði Pétur og vísaði þar einkum til Evrópumálanna.

Össur svaraði því til að hann liti á Ólaf Ragnar sem góðan liðsmann utanríkismálum Íslands. „Hann hefur langhæsta rödd allra þeirra sem tala á Íslandi. Hann er þjóðhöfðinginn. Hann hefur til dæmis tekið þátt í því að setja málefni norðurslóða á dagskrá og það hefur skipt miklu máli.“ Þá sagði hann það hafa verið rétt eftir á að hyggja af forsetanum að beita málskotsréttinum í Icesave-málinu.

„Ég hef aðrar skoðanir en forseti Íslands á Evrópumálum en ég hef aldrei heyrt forsetann tala um að það eigi að slíta viðræðunum. Ég hef aldrei heyrt hann tala um það. Það hefur ekki nokkur maður gert það nema örfáir í þessum sal.Það er vegna þess að hann ber dýpra og betra skyn á utanríkismál en sá flokkur sem háttvirtur þingmaður talar fyrir,“ sagði Össur ennfremur.

Pétur svaraði því til að hann hefði ekki fengið það á hreint hver það væri hver sem mótaði stefnu Íslands í utanríkismálum. Hvort það væri forsetinn eða utanríkisráðherrann. „Stefnu Íslands í utanríkismálum mótar Alþingi og forseti Íslands fer að þeirri stefnu. Þannig er stjórnarskráin,“ svaraði utanríkisráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert