Fær einn hópur kjarabætur en aðrir ekki?

Landspítalinn er annar stærsti vinnustaður félagsráðgjafa á Íslandi. Þar starfa …
Landspítalinn er annar stærsti vinnustaður félagsráðgjafa á Íslandi. Þar starfa nú 46 félagsráðgjafar, 45 konur og einn karl. mbl.is/Heiddi

Formaður Félagsráðgjafafélags Íslands segir óviðunandi að óvissa ríki vegna stofnanasamnings félagsráðgjafa. Skorað er á velferðarráðherra að skýra í hvaða aðgerðir fjármunir til að jafna launamun kynjanna verða settir á næstu mánuðum og spurt er hvort einn faghópur fái kjarabætur á þessu ári en aðrir ekki.

Þetta kemur fram í fyrirspurn sem Félagsráðgjafafélag Íslands beinir til velferðarráðherra um jafnlaunaátak árið 2013 og stöðu félagsráðgjafa á LSH.

Fram kemur, að félagið fagnaði fréttum af jafnlaunaátaki því sem kynnt var í ríkisstjórn þann 22. janúar síðastliðinn þar sem fram kom að hefja ætti aðgerðir strax á þessu ári til að jafna launamun kynjanna á heilbrigðisstofnunum.

„Fréttirnar blésu félagsráðgjöfum von í brjóst um að stofnanasamningur yrði brátt í höfn en Landspítalinn er annar stærsti vinnustaður félagsráðgjafa á Íslandi. Þar starfa nú 46 félagsráðgjafar, 45 konur og einn karl.

Fréttir gærdagsins af viðræðum vegna stofnanasamnings hjúkrunarfræðinga gefa til kynna að það sé ekkert fjármagn sett í átakið nema til handa einni heilbrigðisstétt. Fundi sem vera átti í gær vegna stofnanasamnings félagsráðgjafa var frestað og félagsráðgjafar vita ekkert hver staðan er. Þessi óvissa er algerlega óviðunandi,“ segir félagið.

„Félagsráðgjafafélag Íslands skorar á velferðarráðherra að skýra í hvaða aðgerðir fjármunir til að jafna launamun kynjanna verða settir á næstu mánuðum og spyr hvort einn faghópur fái kjarabætur á þessu ári en aðrir ekki,“ er spurt að lokum.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert