Sögð hafa oftekið 481.663.980 krónur

Steinunn Guðbjartsdóttir og Páll Eiríksson.
Steinunn Guðbjartsdóttir og Páll Eiríksson. mbl.is/Golli

Fimm lífeyrissjóðir, sem jafnframt eru kröfuhafar í þrotabú Glitnis hf., hafa krafist þess að þau Steinunn Guðbjartsdóttir og Páll Eiríksson, sem sitja í slitastjórn Glitnis, endurgreiði þrotabúi bankans upphæð sem nemur rúmlega 481 milljón króna. Upphæðina hafi þau oftekið í laun fyrir störf sín og sinna fyrirtækja. 

Í bréfi sem lífeyrissjóðirnir sendu héraðsdómi kemur fram að þess er krafist að Steinunn Guðbjartsdóttir eða félög á hennar vegum endurgreiði búi Glitnis þóknanir að fjárhæð 234.146.605 krónur og að Páll Eiríksson eða félög á hans vegum endurgreiði búinu þóknanir að fjárhæð 159.185.455 krónur. Þá vilja sjóðirnir að þau Steinunn og Páll sameiginlega eða félög á þeirra vegum endurgreiði búi Glitnis þóknanir vegna fulltrúa að fjárhæð 88.331.920 krónur. Samtals er því krafist að þau Steinunn og Páll endurgreiði búinu þóknanir að fjárhæð 481.663.980 krónur.

Verði vikið úr slitastjórninni, greiði þau ekki innan tveggja mánaða

Þessar kröfur ná til þóknana sem voru greiddar á árunum 2009 og fram á mitt ár 2012. Til viðbótar er þess því einnig krafist að Steinunn og Páll eða félög á þeirra vegum endurgreiði aðrar þær þóknanir sem þau kunni að hafa fengið úr þrotabúi Glitnis frá miðju ári 2012 sem séu umfram þau viðmið sem lífeyrissjóðirnir leggja til grundvallar. Fallist héraðsdómur ekki á þessar kröfur er þess krafist að dómurinn ákvarði lægri upphæð til endurgreiðslu.

Þá er þess krafist til viðbótar að inni Steinunn og Páll eða félög á þeirra vegum ekki umræddar greiðslur af hendi innan tveggja mánaða að þeim verði vikið úr slitastjórn Glitnis hf. með úrskurði dómsins. Þá er málskostnaðar krafist úr hendi þeirra ef þau mótmæla kröfunni.

Þóknanir umfram það sem venja stendur til

Tildrög málsins eru þau að Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi - lífeyrissjóður óskuðu eftir því síðastliðið haust að fá sundurliðaðar upplýsingar um þóknanir til slitastjórnar. Féllst slitastjórnin á fundi með héraðsdómara í Héraðsdómi Reykjavíkur að afhenda umbeðnar upplýsingar. Þótti lífeyrissjóðunum sem að þóknanir til meðlima slitastjórnarinnar, sem og útseld vinna til félaga á þeirra vegum væru langt umfram það sem venja stæði til og viðgengist hefði hjá verjendum og opinberum sýslunarmönnum.

Tæpum hálfum milljarði of mikið

Í bréfi lífeyrissjóðanna til héraðsdóms eru lagðir fram útreikningar á því hvað gæti talist eðlileg þóknun. Miðað við þá útreikninga hópsins, sem eru sundurliðaðir eftir árum,  hefur greidd þóknun til slitastjórnar í heildina numið um einum milljarði króna með virðisaukaskatti. Samkvæmt útreikningum hópsins á eðlilegri þóknun hefðu greiðslurnar átt að nema um 590 milljónum og hafa því 481.663.980 krónur verið teknar umfram það sem eðlilegt er að mati lífeyrissjóðanna.

Að lokum er þess óskað að héraðsdómur hraði meðferð málsins sem kostur er.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert