„Sorgleg afturför í jafnrétti hérlendis“

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Nú er ljóst að það verða bara karlar í foringjasætum þeirra flokka sem ætla má að nái fólki inn á þing. Það finnst mér sorgleg afturför í jafnrétti hérlendis,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, og vísar þar til formannskjörsins í Samfylkingunni þar sem Árni Páll Árnason var kjörinn formaður flokksins.

Formenn annarra flokka á Alþingi, fyrir utan Hreyfinguna sem hefur ekki formann, eru einnig karlmenn sem kunnugt er. Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins og Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Árni Páll tók við formennskunni í Samfylkingunni af Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra.

„Þegar ég hef verið á þessum foringjafundum þá hefur það svo sannarlega verið gott að hafa Jóhönnu þar, frekar mikil karlalykt annars í viðhorfum,“ segir Birgitta á Facebook-síðu sinni en leggur þó áherslu á að hún sé ekki að kalla eftir kynjakvótum í þessu sambandi. Hún sé aðeins að vekja athygli á því sem hún telji afturför.

„Mér finnst það allavega umhugsunarvert að þetta sé svona á meðan landinu er mikið hampað erlendis sem fyrirmynd í jafnréttismálum. Það er umhugsunarvert að konum sé ekki treyst eða þær treysti sér ekki í þessi hlutverk. Þess vegna er ég hrifin af því að skipta með sér leiðtogaverkum á ársgrundvelli innan flokka,“ og vísar hún þar til þess fyrirkomulag sem notað hefur verið innan Hreyfingarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert