Setja upp vöktun í Kolgrafafirði

Endurtekinn síldardauði í Kolgrafafirði í Grundarfirði verður ræddur í ríkisstjórn á morgun en umhverfis- og auðlindaráðherra og atvinnu- og nýsköpunarráðherra munu þá taka málið upp á vettvangi ríkisstjórnar. Lagt er til að veitt verði fjármagn til vöktunar ástands fjarðarins og að metin verði þörf og möguleikar á mótvægisaðgerðum vegna atburðarins.

Þetta kemur fram í frétt á vef umhverfisráðuneytisins.

Nú hefur tvívegis orðið stórfelldur síldardauði í Kolgrafafirði á Snæfellsnesi, fyrst í desember 2012 og aftur um síðastliðna helgi. Þetta er að því er best er vitað fordæmalaus viðburður, en um 30.000 tonn af fiski eru talin hafa drepist í desember og aftur þúsundir tonna síðastliðinn föstudag.

Hafrannsóknastofnun hefur nú þegar hafið athugun á umfangi síðari síldardauðans og ástandinu í firðinum eftir hann. Umhverfisstofnun hefur sett upp drög að eftirlitsáætlun, sem miðar að því að skoða m.a. útbreiðslu grútar og niðurbrot hans í fjörum, líta eftir grútarblautum fuglum og mæla og skoða ástand sjávar í firðinum.

Hreinsunarátak á morgun

Náttúrustofa Vesturlands hefur verið á vettvangi og fylgist m.a. með fuglalífi í tengslum við þessa viðburði. Eins hafa íbúar á svæðinu fylgst grannt með gangi mála og m.a. skipulagt hreinsunarátak á morgun þar sem hópur fólks mun ganga um fjöruna og tína síldina upp eftir föngum en stefnt er að nýtingu hennar í minkafóður. Þá munu ráðuneytin tvö funda á morgun með sérfræðistofnunum til að ræða stöðu mála og stilla saman strengi við eftirlit og rannsóknir. 

Til lengri tíma er nauðsynlegt að rannsaka betur orsakir og afleiðingar síldardauðans og svara m.a. spurningum um hvort líklegt sé að viðlíka viðburður endurtaki sig og hvort hægt sé að gera eitthvað til að draga úr líkum á því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert