„Skúrað út úr“ Hæstarétti

Allir þeir sem uppþvottahanska geta valdið voru hvattir til að taka til hendinni við Hæstarétt í morgun, þar sem efnt var til morgunmótmæla vegna dóms sem þar féll á föstudag. „Verndar ofbeldismenn,“ var krotað á vegg dómshússins í nótt.

Í fundarboðinu á facebook segir m.a. hópurinn ætli sér að „skúra út úr Hæstarétti“ þá vitleysu sem átti sér stað í nýlegu dómsmáli (nr. 521/2012) í grófu ofbeldisbroti sem fjórir hæstaréttardómarar komust að þeirri niðurstöðu um að teldist ekki kynferðisbrot.

„Kynferðisbrot eru hluti af stærra samfélagsvandamáli sem spretti úr okkar jarðvegi [...] „Vandinn liggur ekki hjá einstökum ofbeldismönnum heldur í ofbeldismenningu sem við þurfum að viðurkenna og fást við [...] Hérna er það Hæstiréttur sem er að bregðast fórnarlambi kynferðisofbeldis og er með dómi sínum að setja vafasamt fordæmi; það að ofbeldi sem ekki fullnægir gerandanum sé ekki talið kynferðisofbeldi, þó það brjóti á kynfrelsi fórnarlambsins.“

Hópur mótmælenda var mættur við Hæstarétt um klukkan 8 í morgun og framkvæmdi þar táknrænan gjörning með skúringahanska, fötur og kústa á lofti. Lögreglan fylgdist með mótmælunum en hafði ekki afskipti af þeim. Krotað hefur verið á vegg dómshússins, en samkvæmt upplýsingum mbl.is hafði það þegar verið gert þegar fyrstu mótmælendurnar bar að garði í morgun.

Borgaraleg réttindi til kynfrelsis

Píratar sendu í nótt frá sér yfirlýsingu þar sem niðurstaða Hæstaréttar í málinu er fordæmd. Píratar eru sammála séráliti Ingibjargar Benediktsdóttur sem ein hæstaréttardómara telur um kynferðisbrot að ræða. 

„Við óttumst að dómurinn geti haft fordæmisgefandi gildi í kynferðisbrotamálum, þar sem einblínt er á ætlaðan tilgang gerandans fremur en þau brot á réttindum þolandans sem um ræðir,“ er haft eftir Helga Hrafni Gunnarssyni, meðlimi í Pírötum. „Dómurinn sýnir fram á stöðnun eða jafnvel afturför í dómskerfinu gagnvart kynferðisbrotum og sýnir svo ekki verði um villst að kominn sé tími til lagasetningar um kynfrelsi sem sérstaka tegund borgararéttinda."

Þá vilja Píratar að gerð sé ítarleg hlutlaus rannsókn á þeim dómum sem kveðnir hafa verið upp í kynferðisbrotamálum undanfarinn áratug, með það fyrir augum að kanna hvort dómtúlkanir séu í ósamræmi við gildandi lög, eða hvort lögin sjálf séu almennt það óljós að jafnvel dómarar eigi erfitt með að skilja tilgang þeirra.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert