Viljum ekki nýja Sturlungaöld

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur.
Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Ef samfélagið leggur blessun sína yfir það að fólk taki lögin í eigin hendur með ofbeldi gegn kynferðisbrotamönnum er verið að greiða götu hálfgerðs skrílræðis sem ekki verður samfélaginu til framdráttar, að mati afbrotafræðings. Um helgina komu upp bæði líkamsárás og skotárás tengd kynferðisbrotum.

Fjórir karlmenn voru handteknir um helgina eftir að skotið var á hús á Eyrarbakka á laugardag og var einn þeirra dæmdur í gæsluvarðhald í gær. Málið er sagt tengjast kynferðisbrotum sem sagt var frá á Facebook.

Á Akureyri liggur karlmaður á áttræðisaldri á sjúkrahúsi eftir að tveir piltar réðust inn á heimili hans á Skagaströnd um helgina og börðu hann. Málið mun tengjast kynferðisbrotum sem maðurinn er sakaður um að hafa framið gegn barnabörnum sínum og er kæra á hendur honum til skoðunar hjá ríkissaksóknara.

Hefndaraðgerðir vegna kynferðisofbeldis

Lögreglan á Akureyri hefur einnig til rannsóknar kæru sem kona lagði fram í janúar, í kjölfar umfjöllunar Kastljóss, gegn karlmanni um sjötugt vegna kynferðisbrota hans fyrir 40 árum. Fyrir tæpu ári réðst sonur konunnar inn á heimili mannsins á Þórshöfn og barði hann  og skar. Sagði lögregla þá árásina vera uppgjör á áratuga gömlu máli sem ekki kom til kasta lögreglu á sínum tíma.

Fleiri slík nýleg dæmi eru um að fólk reyni að koma fram hefndum vegna kynferðisbrota. Nóttina eftir umfjöllun Kastljóss um Karl Vigni Þorsteinsson safnaðist lítill hópur pilta saman við heimili hans í austurborg Reykjavíkur svo nágrönnum hans stóð ekki á sama og létu lögreglu vita, en samkoman leystist upp og hefur Karl Vignir verið í gæsluvarðhaldi síðan. Á Facebook fór af stað mikil umræða og dreifing á myndum og ásökunum á hendur nafngreindum mönnum, m.a. í hópnum „Við viljum nöfn og myndir af dæmdum barnaníðingum“ sem nú virðist hafa verið lokað.

Brot gegn börnum kveikja elda

Helgi Gunnlaugsson, félagsfræðingur og sérfræðingur í afbrotafræðum, varaði við múgæsingu fljótlega í kjölfar umfjöllunar Kastljóssins í janúar og þeirrar miklu umræðu sem varð í framhaldinu. Hann segir það hættulegt ef fólk grípur lögin í eigin hendur. „Með því erum við raunverulega að grafa undan samfélaginu. Þá er þetta orðið stríð allra gegn öllum og það mun ekki færa okkur neitt, það færir okkur aftur á bak.“ 

Kynferðisbrot gegn börnum snerta við öllum og Helgi segir þau kveikja elda sem skiljanlegt sé. „Við sem samfélag erum að horfast í augu við þungbærar afleiðingar þessara brota til lengri tíma. Ég held að samfélagið hafi ekki skilið eða orðið þess áskynja hversu alvarleg þessi brot eru, en þeir þolendur sem stigið hafa fram hafa sýnt okkur inn í heim sálarkvalar og með umræðunni hefur runnið upp fyrir okkur ljós.“

Samfélagið lokaði augunum

Helgi segir að sú tilfinning virðist ríkjandi hjá mörgum að réttarkerfið sé máttlaust gagnvart kynferðisbrotum. Þannig réttlæti fólk fyrir sér að taka lögin í eigin hendur og grípa til hefndaraðgerða. „En það er ekki bara réttarkerfið sem brást í þessum málaflokki heldur samfélagið allt. Máttleysi réttarkerfisins er skilgetið afkvæmi sinnuleysisins í samfélaginu gagnvart þessum brotum.“

Þannig bendir Helgi á að skilningur samfélagins á kynferðisbrotum gegn börnum hafi aukist mikið á stuttum tíma, ekki ósvipað því sem varð í meðferð nauðgunarmála almennt nokkru fyrr. Áður hafi verið þess dæmi að konur mættu fordómum og tregðu af hálfu yfirvalda ef þær lögðu fram kæru um kynferðisbrot en það hafi breyst. Hvað varðar barnaníð þurfi ekki að fara nema örfá ár aftur í tímann til að sjá samfélag sem var fáskiptið gagnvart þessum glæpum og má sem dæmi nefna að fyrir 7 árum var umfjöllun um brot Karls Vignis og hann nafngreindur sem barnaníðingur, m.a. bæði í DV og Morgunblaðinu, án þess að það hefði nokkur eftirmál.

„Ef við förum ennþá lengra aftur sjáum við samfélag sem var alls ekki tilbúið að takast á við þetta. Í ævisögu Sævars Cicielski sem kom út á 8. áratugnum voru til dæmis lýsingar á svona meðferð á börnum en samfélagið lokaði augunum fyrir því. Það er eins og alvarleiki þessara brota hafi ekki verið skynjaður, almenningur bara trúði þessu ekki. Svo er eins og það losni um einhverja spennu og þá blossa öll þessi gömlu mál upp.“

Viðbrögðin þurfa að vera uppbyggileg

Þennan þroska sem samfélagið tekur út er mikilvægt að nýta á uppbyggilegan hátt, að mati Helga, með yfirvegaðri umræðu. Það bjóði hættunni heim að gera kynferðisbrotamenn að leyfilegum skotmörkum. „Með því erum við raunverulega að opna fyrir hálfgert skrílræði. Reiði og heift geta blossað upp með svo margíslegum hætti og búið til óargadýr í okkur sjálfum. Við viljum ekki búa í svoleiðis samfélagi. Við viljum ekki aðra Sturlungaöld.“

Helgi segist telja að ýmislegt megi gera til að auka traust almennings á réttarkerfinu í kynferðisbrotamálum. Til dæmis sé mikilvægt að koma á laggirnar einhvers konar öryggisneti eftir að afplánun kynferðisbrotamanna lýkur, þannig að hægt sé að fylgjast með þeim og draga úr áhættunni á frekari brotum. „Ef þeir eru eftirlitslausir úti í samfélaginu þá skapast ótti. Menn verða að finna að það sé eftirfylgni.“

Ekki síður þurfi að sýna að kynferðisbrotamál séu tekin alvarlega og af festu. „Það þarf að fara fram yfirveguð umræða um hvernig tekið er á þessum málum og hvað má betrumbæta. Það þarf að koma til móts við þær raddir sem hafa skotið rótum í þjóðarsálinni að réttarkerfið sé ekki vanda sínum vaxið. Við þurfum að fá að sjá með trúverðugum hætti að verið sé að vinna í þessum málum af fullri alvöru og á sama tíma megum við ekki láta tilfinningarnar taka völdin. Það er mjög mikið í húfi fyrir okkur.“

Dómstólar og lögregla þurfa að sýna hvernig tekið er á …
Dómstólar og lögregla þurfa að sýna hvernig tekið er á kynferðisbrotamálum og að það sé gert af alvöru segir Helgi Gunnlaugsson. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
Dómstólar og lögregla þurfa að sýna hvernig tekið er á …
Dómstólar og lögregla þurfa að sýna hvernig tekið er á kynferðisbrotamálum og að það sé gert af alvöru segir Helgi Gunnlaugsson. Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert