Þröng staða Árna Páls

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segir stöðu Árna Páls Árnasonar, nýkjörins formanns …
Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segir stöðu Árna Páls Árnasonar, nýkjörins formanns Samfylkingarinnar, þrönga. mbl.is/Kristinn

„Manni sýnist þetta vera ansi þröng staða fyrir þennan nýja formann, þó að það megi mögulega sjá einhverja kosti við þetta,“ segir Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur um þá stöðu Árna Páls Árnasonar, nýkjörins formanns Samfylkingarinnar, að vera óbreyttur þingmaður á meðan forveri hans, Jóhanna Sigurðardóttir, situr enn sem forsætisráðherra.

Að sögn Stefaníu er kosturinn við þessa stöðu sá að Árni Páll hefur ekki átt sæti í ríkisstjórninni í rúmt ár og getur af þeim sökum fjarlægt sig að vissu leyti frá núverandi ríkisstjórn og óvinsældum hennar sem og talað fyrir breytingum.

„En á sama tíma þá náttúrlega hljóta menn að túlka öll slík ummæli um breytt vinnulag, og aðrar nálganir, sem gagnrýni á núverandi forystu,“ segir Stefanía og bætir við: „Það auðvitað kallar líka á gagnrýni að nýr formaður sé með svolítið frítt spil og tali í rauninni eins og stjórnarandstæðingur eða fulltrúi einhverrar annarrar Samfylkingar en þeirrar sem er í ríkisstjórn.“

Veikir flokkinn í aðra röndina

Stefanía bendir á að túlka megi óskir Árna Páls um betri vinnubrögð og öðruvísi nálgun á stjórnmálin sem gagnrýni á núverandi forystu Samfylkingarinnar og telur hún að slíkt veiki flokkinn í aðra röndina.

„Það felst í eðli fulltrúalýðræðisins ábyrgð gagnvart kjósendum og að kjörnir fulltrúar standi reikningsskil á sínum gjörðum, ekki síst í kosningum, og það skýtur skökku við ef flokkur ætlar að skjóta sér undan pólitískri ábyrgð með því að vísa á fyrrverandi forystu og lofa einhverjum nýjum og öðruvísi vinnubrögðum,“ segir Stefanía en hún bendir á að á móti komi að staða Árna Páls sé sú að hann var settur út úr ríkisstjórninni í kringum áramótin 2011/2012.

„Það benti til þess að hann nyti hvorki stuðnings né trausts innsta kjarna ríkisstjórnarinnar og það væri oftast túlkað sem veikleikamerki að vera settur út úr ríkisstjórn en í tilviki Árna Páls reyndist það ekki raunin, það var honum jafnvel til tekna að vera settur út úr ríkisstjórninni og hann sigrar mann sem var tekinn inn í ríkisstjórn og flestir töldu að væri mjög handgenginn Jóhönnu,“ segir Stefanía. Aðspurð hvort formannskjörið marki uppreisn æru Árna Páls segir Stefanía svo vera og bendir á að þetta sé enn einn skugginn á forystu Jóhönnu Sigurðardóttur.

Þá segir Stefanía að þrátt fyrir orð Árna Páls þess efnis að það sé engum vandkvæðum bundið að vera formaður utan ríkisstjórnar með óvinsælan forsætisráðherra í brúnni í aðdraganda kosninga sé eins og honum þyki sú staða óþægileg.

Ekki formaður upp á punt

„Þrátt fyrir að hann segi þetta opinberlega getur manni ekki sýnst annað en að persónulega hljóti honum að finnast þetta mjög óþægileg staða,“ segir Stefanía og bendir á að Árni Páll virðist vera að senda kjósendum, sem og Jóhönnu, þau skilaboð að hann sé ekki formaður upp á punt.

„Hann er að senda þau skilaboð að hann hafi verið kjörinn formaður á landsfundi og hann hafi mest völd í flokknum núna og Jóhanna og ráðherrarnir verði að taka tillit til þess,“ bætir Stefanía við og bendir á að þetta sé töluverð flækja hvernig svo sem leyst verði úr henni. Aðspurð hvort líkur séu á að skipt verði um forsætisráðherra á næstu dögum eða vikum segir Stefanía ekki auðvelt að segja til um það. „Það bendir allt til þess að Jóhanna vilji vera áfram og að hún hafi stuðning þingflokksins til þess.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert