SUS vill halda í forsetann

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á Bessastöðum.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á Bessastöðum. mbl.is/Sigurgeir

Samband ungra sjálfstæðismanna er ekki lengur þeirrar skoðunar að leggja eigi niður embætti forseta Íslands. „Reynslan af Icesave II og III sýnir hinsvegar að nauðsynlegt er að embættið sé áfram til í núverandi mynd svo það geti áfram virkað sem varnagli á stjórnmálamenn sem fara út af sporinu,“ segir í ályktun sem SUS hefur sent frá sér.

Þá hvetur SUS landsmenn til að draga lærdóm af Icesave-málinu. Í ályktuninni segir að ungir sjálfstæðismenn fagni því að málinu sé lokið og að íslenskir skattgreiðendur þurfi ekki að greiða fyrir misheppnuð viðskipti bankamanna. Ungir sjálfstæðismenn hafi alltaf verið á móti því að samið yrði í málinu.

„Það er full ástæða til að átelja þá sem höfðu uppi stóryrði um að Ísland væri á vonarvöl ef ekki yrði samið. Það sannaðist dagana eftir að seinni samningnum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu og nú endalega eftir dóm EFTA-dómstólsins, að það svartagallsraus var rangt. Þar fóru fremstir í flokki forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar og málpípur hennar úr Háskóla Íslands. HÍ ætti að skoða það hvort ekki sé ástæða til að kanna stöðu þeirra manna sem gengu fram með slíkum hætti og tóku þátt í að blekkja þjóðina í pólitískum tilgangi.

Þá er alvarlegt að ríkisstjórn, sem var sett saman undir merkjum lýðræðis og opnara og gagnsærra samfélags, hafi í upphafi reynt að halda samningunum leyndum fyrir þingi og þjóð og svo fellt tillögu þingflokks Sjálfstæðisflokksins um að Icesave III yrði borinn undir þjóðina,“ segir í ályktuninni.

Loks segir að til framtíðar megi draga eftirfarandi lærdóm af málinu:

  1. „Það hvetur til óábyrgrar hegðunar og skapar mikla hættu fyrir skattgreiðendur að ríkið eða sjóðir á vegum ríkisins standi í ábyrgð fyrir skuldum fyrirtækja. Afnema á ábyrgð á innstæðum og ríki og sveitarfélög eiga að selja sig út úr skuldsettum fyrirtækjarekstri, svo sem orkufyrirtækjum, þar sem skattborgarar eru í ábyrgð fyrir öllum skuldunum.
  2. Það var áður stefna ungra sjálfstæðismanna að leggja ætti niður embætti forseta Íslands. Reynslan af Icesave II og III sýnir hinsvegar að nauðsynlegt er að embættið sé áfram til í núverandi mynd svo það geti áfram virkað sem varnagli á stjórnmálamenn sem fara út af sporinu.“
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert