Janúar ekki lengur rólegur mánuður

Wikipedia

Hingað til hafa fyrstu og síðustu mánuðir ársins verið rólegur tími hjá Útlendingastofnun. Árið 2011 sótti til dæmis enginn um hæli í janúar og sex sóttu um hæli í janúar í fyrra. Álagið hefur verið á sumrin en í ágúst í fyrra, þegar 20 sóttu um hæli, þótti mönnum reyndar sem nýjum hæðum væri náð.

Nú blasir allt önnur staða við. Í janúarmánuði 2013 hefur 31 sótt um hæli hér á landi og alls eru umsóknirnar orðnar 41. Nú er staðan sú að yfir 170 manns dvelja hér á landi og bíða svara frá stjórnvöldum um hvort þeir fái hæli hér á landi, af þeim njóta 144 aðstoðar hjá félagsþjónustunni í Reykjanesbæ, samkvæmt samningi við ríkið.

Rauði krossinn hefur áhyggjur af því að aukið álag á Útlendingastofnun muni leiða til þess að lengri tíma taki að afgreiða málin sem komi sér afar illa fyrir hælisleitendur.

Engin skýring á fjölgun

Mesta athygli vekur mikill fjöldi umsókna frá Króötum en eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær liggja 29 hælisumsóknir frá Króötum fyrir hjá Útlendingaeftirlitinu, 22 voru lagðar fram á þessu ári en sjö sóttu um hæli undir lok síðasta árs. Stofnunin hefur ekki áður fengið svo margar umsóknir frá ríkisborgurum sama lands. Í ljósi fjöldans má leiða að því líkur að reynt verði að hraða umfjöllun um mál þeirra. Engin skýring hefur fengist á þessum skyndilega straumi frá Króatíu eða þeirri aukningu sem orðið hefur á umsóknum frá ríkisborgurum annarra landa. Hugsanlega er skýringarinnar einfaldlega að leita í auknu framboði ódýrum flugsætum til Íslands.

Biðtíminn reynist fólki erfiður

Sólveig Ólafsdóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, segir að það blasi við að fjölgun umsókna valdi því að fjölga þurfi starfsmönnum hjá Útlendingastofnun eigi að komast hjá því að biðtími eftir úrskurði stofnunarinnar lengist.

„Langur biðtími fer ótrúlega illa með fólk,“ segir Sólveig. Hælisleitendur séu undir miklu álagi og langur afgreiðslutími geri ekkert annað en að draga álagið á langinn. Fólkið fái ekki háar fjárhæðir til framfærslu og hafi lítið við að vera meðan umsóknin er til meðferðar hjá yfirvöldum.

Fái kost á að búa víðar

Í Morgunblaðinu í gær kom fram að félagsþjónustan í Reykjanesbæ telur að fjöldi hælisleitenda sé orðinn svo mikill að fleiri sveitarfélög verði að koma að þjónustu við þá.

Sólveig bendir einnig á að það sé ekki endilega heppilegt að hýsa svo marga hælisleitendur á sama svæðinu, m.a. vegna þess að erfiðara sé fyrir hælisleitendur að falla inn í hópinn í smærri bæjarfélögum heldur en í þeim stærri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert