Væntir glæsts árangurs með samvinnu

„Ég þakka kærlega þann gríðarlega stuðning sem ég fæ til að feta í fótspor Birkis Jóns Jónssonar,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, nýkjörinn varaformaður Framsóknarflokksins þegar kjöri hans hafði verið lýst á flokksþinginu í Gullhömrum í dag.

Sigurður Ingi hlaut 94,7% greiddra atkvæða, en 381 greiddi atkvæði í varaformannskjörinu af þeim 770 sem hafa seturétt á flokksþinginu.

„Ég heiti ykkur því að vinna af alefli í öflugri forystusveit Framsóknarflokksins að því marki að koma okkur enn hærra til að ná miklum kosningasigri í vor,“ sagði Sigurður Ingi.

Hann sagði þingflokkinn og frambjóðendur í efstu sætum bera ábyrgð á að halda málstaðnum uppi og sagðist hafa fundið mikinn kraft og samstöðu á kjördæmaþingum flokksins í vetur.

„Ég er ekki í nokkrum vafa að við náum glæstum árangri í vor með aðstoð og samvinnu okkar allra. Hafið kæra þökk,“ sagði Sigurður Ingi að lokum í ræðu sinni.

Frétt mbl.is: Sigurður Ingi hlaut 94,7% atkvæða

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert