„Vettvangurinn skiptir engu máli“

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson mbl.is/Golli

Engu máli skiptir á hvaða vettvangi fólk lætur ærumeiðandi ummæli falla. Þau eru alltaf refsiverð, hvort sem þau birtast í athugasemdakerfi netmiðla, munnlega eða á prenti. Þetta segir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður. Auðveldara er nú en áður að koma slíkum ummælum á framfæri.

Vilhjálmur hefur farið með mál nokkurra einstaklinga vegna ummæla sem viðhöfð hafa verið um þá á netinu. 

„Það breytir engu á hvaða vettvangi fólk tjáir sig með þessum hætti,“ segir Vilhjálmur.  „Grunnurinn að þessu eru ærumeiðingarákvæði almennra hegningarlaga sem fjalla um móðganir og aðdróttanir. Um leið og einhver lætur slík orð falla, sama með hvaða hætti það er og ef það varðar við lög, þá hefur viðkomandi gerst sekur um refsiverða ærumeiðingu. Formið skiptir engu máli.“

Þyrfti skýrari lagasetningu um þetta? „Nei, lögin eru alveg skýr.“

Erfitt að taka til baka

Hann segir athugasemdakerfi og bloggsíður gera það að verkum að auðveldara sé að koma meiðandi ummælum á framfæri en áður. „Til dæmis er miklu erfiðara að birta svona lagað í blaðagrein. Að öllu eru alls konar síur varðandi birtingu slíkra greina og fólk hefur líka fleiri tækifæri til að taka ummælin til baka. En stundum er það þannig með netummæli, að fólk les frétt sem vekur sterk viðbrögð og lætur skoðanir sínar flakka. Þegar það er búið, þá er afskaplega erfitt að ætla að gera eitthvað í þeim hlut. Oft á tíðum breytir það engu þó að fólk taki ummælin út síðar, því að brotið er fullframið.“

Segir suma fjölmiðla búa til vettvang

Vilhjálmur segir umhugsunarvert að sumir netmiðlar skrifi afar gildishlaðnar fréttir, þar sem „kveikt sé upp í fólki“ og því gefinn kostur á að skrifa athugasemdir við þær. „Þá er eiginlega búið að ýta skoðuninni að lesandanum.“

En getur fjölmiðill borið ábyrgð á skoðunum lesenda sinna? „Samkvæmt fjölmiðalögunum, ef viðkomandi skrifar undir nafni, þá ber hann ábyrgð á sínum ummælum. En hins vegar er ákvæði í almennum hegningarlögum um að útbreiðsla og dreifing ummæla er sjálfstætt refsivert brot. Sumir fjölmiðlar búa til vettvang fyrir svona ummæli, ef fólk skrifaði þau á eigin bloggsíður þá væru þau margfalt minna skaðleg því að færri myndu sjá þau. Ég held að það eigi eftir að reyna frekar á þetta í framtíðinni þó að fjölmiðlalögin séu nokkuð skýr.“

Umfjöllun mbl.is um sænskan fréttaþátt þar sem fjallað var um hótanir á netinu.

Engu máli skiptir frá sjónarhorni laganna hvort ærumeiðandi ummæli eru …
Engu máli skiptir frá sjónarhorni laganna hvort ærumeiðandi ummæli eru slegin inn á lyklaborð og birt á vefsíðum eða prentuð á blað. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert