Hugmyndir um að takmarka klám vekja athygli

Erlendir fjölmiðlar sýna hugmyndum Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra um að takmarka …
Erlendir fjölmiðlar sýna hugmyndum Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra um að takmarka aðgang að klámefni á netinu talsverðan áhuga. mbl.is/Ómar Óskarsson

Nokkrir erlendir fjölmiðlar hafa í dag og í gær fjallað um hugmyndir Ögmundar Jónassonar um að takmarka aðgengi að klámefni á netinu.

Breska blaðið Daily Mail hefur eftir Höllu Gunnarsdóttur, aðstoðarmanni Ögmundar, að fyrst mannkyninu hafi tekist að senda menn til tunglsins hljóti að vera hægt að leysa það tæknilega vandamál að takmarka aðgang að klámefni á netinu. Hún segist bjartsýn á að frumvarp um þetta mál verði afgreitt á þessu vorþingi.

Fjallað er einnig um málið í breska blaðinu Telegraph. Blaðið hefur eftir Gail Dines, prófessor og sérfræðingi í klámi, að Ísland sé að taka mjög merkilegt skref sem engin önnur lýðræðisþjóð hafi reynt að stíga. Ísland sé að horfa á málið út frá nýju sjónarhorni, þ.e. hversu klámið fari illa með konur og að um sé að ræða brot á borgaralegum réttindum.

Rússneski fjölmiðillinn rt.com skrifar einnig um þetta mál. Þar segir að árið 2010 hafi stjórnvöld á Íslandi bannað nektarstaði, á þeirri forsendu að starfsemi staðanna færi illa með konur. Samhliða hafi stjórnvöld á Íslandi beitt sér fyrir rannsókn á áhrifum kláms á konur og börn.

Írska blaðið Irish Examiner ræðir við Ögmund Jónasson sem segir að við verðum að geta rætt um hugsanlegt bann við ofbeldisfullu klámefni, sem allir séu sammála um að sé mjög skaðlegt fyrir ungt fólk og geti stuðlað að ofbeldisglæpum.

Blaðið hefur hins vegar eftir Þresti Jónassyni, talsmanni Félags um stafrænt frelsi á Íslandi, að hugmyndir um að banna aðgang að klámefni á netinu séu óframkvæmanlegar. Hann segir að efnið þurfi að fara í gegnum síu, sem þýði að einhver verði í því hlutverki að ákveða hvað megi horfa á og hvað ekki.

Norska dagblaðið fjallar einnig um þetta mál í dag. Vitnað er í viðtal við Ögmund Jónasson um þetta mál á mbl.is þar sem hann leggur áherslu á að hugmyndir sínar um að takmarka aðgengi að klámefni séu ekki til marks um ritskoðun.

Frétt blaðsins endar á því að segja að þau lönd sem reyni með ýmsum hætti að takmarka aðgengi að klámefni á netinu séu t.d. Kína, Íran, Sádi-Arabía og Jemen.

Norski fjölmiðillinn abcnyheter.no skrifar einnig frétt um þetta mál. Þar er haft eftir Höllu Gunnarsdóttur að börn á Norðurlöndum séu að meðaltali 11 ára þegar þau horfi á klámmynd í fyrsta skipti. Klámmyndirnar sem börn séu að horfa á heiti ekki lengur „Hot Love“ heldur „True Anal stories“ og „Gangraped By A Football Team“.

Einnig er fjallað um málið í Washington Times og í ítarlegri frétt á Huffington Post.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert