Ný hugsun í almannatryggingum

Frumvarpið felur í sér miklar breytingar fyrir ellilífeyrisþega sem njóta …
Frumvarpið felur í sér miklar breytingar fyrir ellilífeyrisþega sem njóta stuðnings frá Tryggingastofnun ríkisins.

Ríkisstjórnin afgreiddi í gær nýtt frumvarp um almannatryggingar og vonast Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra eftir að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi eftir helgina. Hann segir að frumvarpið feli í sér alveg nýja hugsun í almannatryggingum.

Starfshópur undir forystu Árna Gunnarssonar, fyrrverandi alþingismanns, vann að tillögunum, en hann greindi frá tillögunum á fundi hjá ASÍ í haust.

Frumvarpið er núna hjá þingflokkum stjórnarflokkanna. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á landsfundi Samfylkingarinnar að nýtt almannatryggingakerfi væri eitt af þeim málum sem þyrfti að ná farsælli niðurstöðu í fyrir kosningar.

„Við verðum að láta þingið meta það,“ sagði Guðbjartur þegar mbl.is spurði hann hvort hann teldi raunhæft að ljúka afgreiðslu þessa máls í vor.

„Þetta frumvarp er unnið á þverfaglegri og þverpólitískri vinnu. Það var stór starfshópur sem vann skýrslu um ellilífeyrismálin, en öryrkjar unnu ekki með hópnum. Frumvarpið miðar að breytingum á stöðu ellilífeyrisþega. Þetta er vissulega skammur tími, en við munum leggja frumvarpið fram og sjá hvað þingið ræður við.“

Guðbjartur sagði að frumvarpið fæli í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. „Það gerir það, en þá sérstaklega til lengri tíma. Þetta er byggt á alveg nýju kerfi. Gert er ráð fyrir sameiningu bótaflokka og breyttum skerðingarmörkum. Þetta felur því í sér alveg nýja hugsun. Það er ástæðan fyrir því að það hefur tekið mjög langan tíma að koma þessu í lagabúning. Það hefur einnig tekið tíma að gera kostnaðarmat. Þetta er dýrt þangað til  lífeyrissjóðirnir taka verulega stóran hluta af kostnaðinum eftir því sem frá líður. Við erum að skoða að breyta frumvarpinu þannig að það verði ekki eins þungt í greiðslum.“

Í frumvarpinu er fjallað um eftirlit Tryggingastofnunar

Í gær kom út skýrsla frá Ríkisendurskoðun þar sem velferðarráðuneytið er m.a. gagnrýnt fyrir að hafa ekki brugðist við tillögum Tryggingastofnunar um að veita stofnuninni auknar heimildir til að rannsaka grun um svik í almannatryggingakerfinu.

Guðbjartur segir að í nýja frumvarpinu sé m.a. að finna ákvæði um heimildir Tryggingastofnunar til að hafa eftirlit með almannatryggingakerfinu og rannsaka ef grunur vaknar um svik.

Í athugasemdum velferðarráðuneytisins við skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að í
frumvarpi til laga um lífeyristryggingar og félagslegan stuðning, sem ætlunin er að komi í stað gildandi laga um almannatryggingar, sé kveðið ítarlega á um eftirlitshlutverk Tryggingastofnunar.

Í frumvarpinu er meðal annars fjallað um eftirlit af hálfu Tryggingastofnunar með útgreiðslu lífeyris en lagt er til að kveðið verði á um skyldu Tryggingastofnunar til að sannreyna réttmæti greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á með reglubundnum hætti. Lagt er til að stofnuninni sé heimilt í þágu eftirlits að óska eftir öllum gögnum sem talin eru nauðsynleg til að sannreyna réttmæti ákvarðana og greiðslna. Mikilvægt sé talið að stofnunin geti sannreynt að upplýsingar er varða tekjur, búsetu og aðrar aðstæður umsækjanda eða bótaþega eða þeirra sem safna réttindum til töku lífeyris á grundvelli búsetu séu réttar.

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert