Efnivið í heila skemmu stolið

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglunni á Suðurnesjum var í gærdag tilkynnt um að efni í skemmu í eigu golfklúbbs í umdæminu hefði verið stolið eins og það lagði sig. Um var að ræða einingar sem átti að fara að setja saman þegar þjófnaðurinn uppgötvaðist.

Upp komin hefði skemman verið sex metrar á breidd og þrjátíu metrar á lengd, þannig að einingarnar voru engin smásmíði, segir í tilkynningu frá lögreglunni.

Lögreglunni á Suðurnesjum var tilkynnt innbrot í grunnskóla Grindavíkur síðdegis í gær. Þegar lögreglumenn mættu á vettvang kom í ljós að sagaðar höfðu verið í sundur keðjur sem læstu álmu þar sem eru kennslurými og bókasafn.

Ekki var séð í fljótu bragði að neinu hefði verið stolið og engin ummerki voru á skólabyggingunni sem bentu til innbrots. Er helst talið að útidyrahurð hafi verið kviklæst og skemmdarvargarnir komist inn með þeim hætti. Lögreglan rannsakar málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert