Vildi hús sem gat ekki brunnið

Á dögunum var Hannesarholt opnað almenningi en það er hús Hannesar Hafstein, fyrsta ráðherra Íslands, sem hann byggði í kjölfar Reykjavíkurbrunans, árið 1915 þar sem á annan tug húsa urðu eldi að bráð og tveir menn létu lífið, með það í huga að byggja hús sem myndi ekki brenna auðveldlega. Nú er búið að byggja upp aðstöðu fyrir tónleika, fundarhald og samkomur af ýmsu tagi í húsinu þar sem almenningi gefst nú kostur á að skoða sig um og kynnast sögu þess.

Hjónin Arnór Víkingsson og Ragnheiður Jóna Jónsdóttir eiga húsið ásamt börnum sínum en sjálfseignarstofnunin Hannesarholt sér um reksturinn og rennur allur hagnaður til hennar. Húsið sem er á fjórum hæðum og stendur við Grundarstíg 10 hefur verið mikið endurnýjað auk þess sem búið er að byggja glæsilegan sal í bakgarðinum þar sem áætlað er að tónleikahald og samkomur af ýmsu tagi fari fram. Í húsinu er einnig rekið kaffihús yfir daginn.

Í Hannesarholti má finna ýmsa muni tengda Hannesi t.d. gamla skrifborðið hans ásamt hægindastól en einnig mynd sem Hannes málaði sjálfur á lok af vindlakassa. Mbl.is skoðaði húsið og ræddi við Ragnheiði um verkefnið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert