Ljúki þegar báðir eru reiðubúnir

AFP

Viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið ætti að ljúka um leið og báðir aðilar eru reiðubúnir til þess. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ályktun um stöðuna varðandi umsókn Íslands sem utanríkismálanefnd Evrópuþingsins samþykkti í gær með 56 atkvæðum gegn tveimur.

Fram kemur í fréttatilkynningu að utanríkismálanefndin fagnaði þeim árangri sem hefði verið náð í viðræðunum en að nefndin hefði engu að síður vonað að búið væri að opna alla viðræðukaflana. Þá er meðal annars lýst áhyggjum í ályktuninni sem fyrr af pólitískri óeiningu innan ríkisstjórnarinnar vegna umsóknarinnar og á meðal stjórnmálaflokkanna. Vona nefndarmenn að umræða um umsóknina fram að þingkosningunum í vor verði uppbyggileg.

Þá er því fagnað að stór hluti Íslendinga vilji halda umsókninni til streitu og lögð áhersla á það sjónarmið nefndarmanna að innganga í Evrópusambandið eigi eftir að styrkja stöðu Íslands í Norður-Evrópu og á Norðurskautssvæðinu og um leið stefnu sambandsins vegna svæðisins.

Komið er inn á niðurstöðu EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu sem hafi hreinsað Ísland af öllum ásökunum um að hafa brotið gegn EES-samningnum í deilunni við Breta og Hollendinga. Greiðslum úr búi Landsbanka Íslands til forgangskröfuhafa er fagnað og að áframhald verði á þeim greiðslum.

Lögð er að síðustu áhersla á nauðsyn þess að makríldeilan verði leyst sem fyrst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert