Með 5,5 kíló af amfetamíni í bakpoka

Amfetamín.
Amfetamín.

Tveir Íslendingar eru í haldi lögreglunnar í Kaupmannahöfn eftir að 5,5 kíló af amfetamíni fundust í geymsluhólfi sem þeir höfðu á leigu á aðalbrautarstöðinni í Kaupmannahöfn, Hovedbanegården. Mennirnir eru á fimmtugs- og þrítugsaldri og hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Greint er frá málinu á vefsvæði danska dagblaðsins Extra Bladet. Þar segir að mennirnir hafi komið með lest frá Svíþjóð til Kaupmannahafnar 14. febrúar sl. Þar hafi þeir leigt sér geymsluhólf og komið bakpoka með efnunum fyrir.

Steffen Th. Steffensen hjá fíkniefnadeild lögreglunnar í Kaupmannahöfn segir í samtali við blaðið að efnin hafi fundist fyrir tilviljun. Þá segist hann ekki vita hvort flytja hafi átt efnin til Íslands.

Tólf Íslendingar eru nú í haldi lögreglunnar í Kaupmannahöfn vegna þriggja fíkniefnamála og hefur verið lagt hald á fleiri tugi kílóa af amfetamíni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert