Stjórnin svaraði ekki tillögum

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég hef ítrekað ýtt á eftir meirihlutanum með formlegum erindum um að fá tillögu um hvernig ríkisstjórnin ætlar formlega að ljúka þessu máli. Ég hef ekkert heyrt frá þeim,“ segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, aðspurður um aðdraganda þess að hann ákvað að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina.

„Síðast sendi ég þeim erindi á mánudag þar sem ég matreiddi ofan í þau tvær tillögur sem ganga fyllilega upp en fékk ekkert svar við því heldur,“ segir Þór.

Spurður um tillögur sínar segir Þór þær vera innanhúsmál.

„Þau hafa heldur ekki svarað þeim þannig að ég sá mér annarra kosta völ en að ýta á eftir þessu,“ sagði Þór.

Spurður hvort Hreyfingin sé einhuga í málinu sagði Þór að þau Margrét Tryggvadóttir og Birgitta Jónsdóttir „væru það ekkert endilega“. „En þau munu ekki greiða atkvæði gegn þessu.“

Í síðustu viku sagði Þór ríkisstjórnina mættu fara „til fjandans“ ef hún heyktist á því að afgreiða stjórnarskrármálið. Taldi Þór ríkisstjórnina eina þá verstu sem setið hefði á lýðveldistímanum, enda hefði henni mistekist að koma stærstu málum sínum í gegn. 

Kosið verður um vantraust á hendur ríkisstjórninni á þriðjudag, samkvæmt þingsályktunartillögu Þórs. Hann fer fram á að þing verði rofið eigi síðar en 28. febrúar og efnt verði til þingkosninga 13. apríl. Fram að kjördegi sitji starfsstjórn skipuð fulltrúum allra flokka á þingi.

Vantrauststillaga lögð fram

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert