Tilvikum inflúensu fjölgaði á ný

Bólusetning
Bólusetning AFP

Fjölda tilkynninga um inflúensulík einkenni jókst að nýju í síðustu viku. Sóttvarnalæknir segir inflúensuna því enn í mikilli dreifingu og beinir því til fólks að beita aðferðum til að draga úr útbreiðslu smits, s.s. með því að hylja vit þegar hóstað er eða hnerrað og „spritta“ eða þvo hendur.

Samkvæmt upplýsingum frá veirufræðideild Landspítalans var inflúensan staðfest hjá alls 15 einstaklingum í síðustu viku, þar af voru 10 með svínainflúensu A(H1), fimm með inflúensu A(H3) og enginn með inflúensu B.

Enn er mikið um inflúensu í Evrópu, inflúensan var víða á uppleið, en samtímis dró úr henni í þeim löndum sem voru fyrst að ná toppnum. Hægt er að fylgjast með stöðunni  í öðrum löndum Evrópu á heimasíðu sóttvarnastofnunar Evrópu ECDC, sjá www.ecdc.europa.eu.

Töluvert dregur nú úr greiningum á RS-veiru skv. upplýsingum frá veirufræðideild Landspítalans, en einungis þrír einstaklingar greindust  með staðfesta RS veirusýkingu í síðustu viku, sem er fækkun miðað við undanfarnar vikur. Lítið hefur verið um aðrar öndunarveirugreiningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert