ESB aðild á að ræða af alvöru

Landsfundur VG hófst nú síðdegis.
Landsfundur VG hófst nú síðdegis. mbl.is/Árni Sæberg

Steinar Harðarson telur að Vinstri grænir eigi að skoða þann valkost að fylgja eftir aðildarviðræðum í Evrópusambandið. Þar sé lýðræði og mannréttindi í öndvegi.

Slíkt sé hlutverk sem Vinstri græn eigi að líta til. Þá sé Evrópusambandið í forsvari fyrir umhverfismál. Eins sé mikilvægt að styrkja stöðu Íslands á norðurslóðum. Telur hann að aðild geti bætt pólitíska hagsmuni á alþjóða vettvangi. Þetta kom fram í almennum stjórnmálaumræðum á landsfundi Vinstri grænna sem nú stendur yfir.  

Elín Sigurðardóttir telur að VG hafa verið í lykilhlutverki í að kynna ungt fólk til   stjórnmála hingað til. Spyr hún hvernig ná megi til ungra kjósenda. Segir hún flokkinn vera að eldast. Spyr hún hvort kominn sé tími til breytinga og hvetur til breytinga í valdboði flokksins. Það verði gert „flatara.“

Friðrik Dagur Arnórsson og fleiri stigu í pontu og spurðu sig þeirrar spurningar hvernig flokkurinn mætti sækja fram til að laða að meira fylgi. Sagði hann helsta málið eiga að vera að tryggja velferð heimilanna. Beinir hann því til forystu flokksins að taka aðal  kosningamál Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um að bæta hag heimilanna. Framtíð flokksins snúist um það að gefa fólki sem hefur tapað miklu, von. 

Fleiri stigu í pontu og töluðu fyrir samvinnu. Innanflokksdeilur séu að baki og tíðrætt var um góðan anda meðal flokksmanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert