Krónan áfram gjaldmiðill þjóðarinnar

Forysta Sjálfstæðisflokksins svaraði fyrirspurnum frá flokksmönnum á landsfundinum í dag.
Forysta Sjálfstæðisflokksins svaraði fyrirspurnum frá flokksmönnum á landsfundinum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Forystumenn Sjálfstæðisflokksins voru sammála um að íslenska krónan ætti að vera gjaldmiðill Íslands um fyrirsjáanlega framtíð. Hins vegar væri eðlilegt að umræða færi fram um fyrirkomulag peningamála þjóðarinnar. Fyrirspurn kom úr sal um það hvort forystumennirnir vildu halda í krónuna eða taka upp annan gjaldmiðil en forystumenn Sjálfstæðisflokksins sitja nú fyrir svörum á landsfundi flokksins.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík, sagðist þeirrar skoðunar að krónan yrði gjaldmiðill Íslands í nánustu framtíð. Hins vegar væri sjálfsagt og eðlilegt að ræða aðra möguleika en hún teldi þó að það væri ekki eitthvað sem ætti eftir að gerast á næstu árum að skipt væri um gjaldmiðil. 

Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist telja að einhliða upptaka annars gjaldmiðils við þær aðstæður sem væru í íslensku efnahagslífi um þessar mundir væri ekki Íslandi í hag. Hann styddi hana ekki. Illugi sagði að það væru aðeins tvær leiðir í boði í þeim efnum. Annaðhvort innganga í Evrópusambandið og evra eða íslensk króna. Hann vildi sjálfur halda í krónuna.

Einar K. Guðfinnsson, oddviti sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi, tók undir með Hönnu Birnu og Illuga. Hann væri þeirrar skoðunar að krónan yrði gjaldmiðill Íslands um fyrirsjáanlega framtíð. Hins vegar væri ljóst að sama hvaða leið yrði farin í peningamálum þjóðarinnar yrði að koma á miklum umbótum á efnahagskerfi þjóðarinnar. 

Ragnheiður Elín Árnadóttir, oddviti sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, var sömu skoðunar varðandi krónuna. Hins vegar væri eðlilegt að aðrir kostir væru skoðaðir í þeim efnum. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti hliðstæðum sjónarmiðum í ræðu sinni við setningu landsfundarins í gær.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram í Laugardalshöll.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram í Laugardalshöll. mbl.is/Árni Sæberg
Forystumenn Sjálfstæðisflokksins sitja fyrir svörum á landsfundi flokksins í dag.
Forystumenn Sjálfstæðisflokksins sitja fyrir svörum á landsfundi flokksins í dag. mbl.is/Hjörtur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert