Leggjast gegn afskriftum

Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins.
Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, mælti gegn þeirri tillögu sem kom fram í efnahags- og viðskiptanefnd á landsfundi flokksins, að ráðist yrði í að lækka höfuðstól verðtryggðra og óverðtryggðra lána sem þöndust út eftir hrun. Pétur H. Blöndal tók í svipaðan streng.

Illugi benti á að gengistryggð lán hefðu verið dæmd ólögleg og vextir þeirra færðir niður. Því væri vandséð hvernig útfæra ætti þessa aðgerð. Þá rifjaði Pétur upp þau ummæli Katrínar Jakobsdóttur, nýs formanns VG, um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði lagt fram óábyrg kosningaloforð. Slík gagnrýni mætti aldrei vera á rökum reist.

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði heppilegra að nota skattkerfið til að hjálpa þeim um 18.000 einstaklingum/heimilum sem hefðu lent í skuldavanda sökum þess að eigið fé væri orðið neikvætt. Pétur ítrekaði að erfitt væri að fá nákvæmar tölur um umfang skuldavandans en honum reiknaðist til að um væri að ræða 90 milljarða króna hjá þeim lántakendum sem verst hefðu farið út úr hruninu. 

Þá taldi Pétur að frekar væri um að ræða greiðsluvanda en skuldavanda enda hefðu tekjur minnkað og skattar hækkað þannig að margir ættu orðið erfitt með að ná endum saman.

Þórólfur Halldórsson mælti einnig gegn afskriftum og sagði Sjálfstæðisflokkinn aðeins lofa því sem hann gæti staðið við.

Hreiðar Örn Gestsson steig einnig í pontu er hann andmælti þeirri skoðun Péturs að afskriftir skulda kæmu leigjendum til góða. Samhengi væri milli leiguverðs og þeirrar lánabyrði sem hvíldi á húsnæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert