Skora á Sjálfstæðisflokkinn

Landsfundur Sjálfstæðismanna 2013
Landsfundur Sjálfstæðismanna 2013 Árni Sæberg

Kjartan Björnsson, rakari og einn gesta landsfundar Sjálfstæðisflokksins, hótar að koma aldrei aftur á landsfund ef flokkurinn stendur ekki við það kjörorð fundarins - í þágu heimilanna - með aðgerðum í þágu skuldsettra heimila. Jón Magnússon hvatti einnig til aðgerða vegna verðtryggingar.

Sagði Kjartan margt fólk á Selfossi hafa misst aleiguna vegna verðtryggingar, ungt fólk og eldra.

Jón rifjaði upp að góður maður hefði sagt að leigubílstjórar, fisksalar og rakarar vissu best hvernig fólk hafi það. Verðtryggingin væri „bráðabirgða framsóknarúrræði“ sem bæri að afnema og koma þannig heimilum og fyrirtækjum til hjálpar.

Óli Örn Eiríksson mælti hins vegar gegn verðtryggingunni og sagði glapræði að bæta um 500 milljarða skuldum vegna verðbólgu og verðtryggingar ofan á um 1.500 milljarða skuldir ríkissjóðs.

Þóra Guðmundsdóttir sagði að reglulega yrðu kollsteypur í heiminum. Mátti skilja á ræðu hennar að hún væri fylgjandi aðgerðum vegna verðtryggingar.

Eins og að pissa í skóinn sinn

Gunnlaugur Snær Ólafsson sagði að þótt almennar aðgerðir til handa heimilum vegna verðtryggingar kæmu þeim til góða mætti ekki gleyma því að þær þyrfti að fjármagna, sem aftur kæmi niður á ríkissjóði og svigrúmi til að fjármagna til dæmis heilbrigðisþjónustu og menntakerfið. Þetta væri því eins og að pissa í skóinn sinn.

Sigrún Þormar hagfræðingur var sama sinnis. Hún sagðist andvíg „jólasveinahagfræði“. Hún hefði misst húsnæði sitt 1984 þegar vísitala launa og lána var aftengd og aftur í Danmörku þegar stýrivextir fóru í 11% á þeim tíma þegar danska krónan var tengd þýska markinu svo uppfylla mætti Maastrict-skilyrðin. Það hefði verið gert í þágu stöðugleika.

Bjarni Kjartansson gagnrýndi hins vegar verðtrygginguna og benti á umræðu um að Ólafslögin, lögin um verðtrygginguna, kynnu að vera ólögleg, líkt og vísbendingar væru um í áliti erlendra aðila.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert