Sex ættliðir í þrjú ár

Aftari röð: (f.v.) Sigurður Rúnar, Bragi, Fjölnir og Ólafur Kjartan. …
Aftari röð: (f.v.) Sigurður Rúnar, Bragi, Fjölnir og Ólafur Kjartan. Fremri röð: Gissur og Jóhanna. Myndin var tekin haustið 2010. mbl.is/Ómar

Það er mjög sjaldgæft að eiga barnabarnabarnabarnabarn á lífi. Til þess þurfa sex ættliðir að vera uppi á sama tíma og hefur það aðeins gerst fjórum sinnum hér á landi svo vitað sé, fyrst árið 1974.

Í dag eru þrjú ár síðan afkomandi Gissurar Ó. Erlingssonar í sjötta lið fæddist. Dóttir Gissurar er Jóhanna G. Erlingsson (f. 1932), sonur hennar Sigurður Rúnar Jónsson (f. 1950), sonur hans Ólafur Kjartan Sigurðarson (f. 1968), sonur hans Fjölnir Ólafsson (f. 1990) og sonur hans Bragi Fjölnisson (f. 2010).

Þar með eiga Gissur (f. 1909) og afkomendur hans Íslandsmet að þessu leyti.

Sigurjóna Jakobsdóttir og fimm afkomendur hennar lifðu öll saman í tvö ár og 275 daga, Laufey Þorgeirsdóttir og afkomendur hennar í eitt ár og 286 daga og Stefanía Ólafsdóttir og afkomendur hennar í fjóra daga eftir að þessum áfanga var náð.

Hjá Sigurjónu og Stefaníu voru allir afkomendurnir í beinan kvenlegg, hjá Laufeyju voru fimm konur og einn karl en hjá Gissuri fimm karlar og ein kona.

Bilið á milli kynslóða þarf að vera að meðaltali um tuttugu ár svo að dæmið gangi upp. Vegna þess að feður eru yfirleitt eldri en mæður er þetta met Gissurar og afkomenda hans því enn merkilegra, segir á fésbókarsíðu sem tileinkuð er langlífi.

Gissur Ó. Erlingsson er loftskeytamaður að mennt, starfaði lengi hjá Pósti og síma og þýddi á annað hundrað bækur. Enginn Íslendingur hefur lifað jafnlengi og hann eftir stúdentspróf. Gissur verður 104 ára í mars og hefur síðustu ár dvalið í Seljahlíð við Hjallasel í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert