Á geðlyfjum árum saman

Íslendingar eiga heimsmet í notkun geðlyfja.
Íslendingar eiga heimsmet í notkun geðlyfja. Þorkell Þorkelsson

Engar viðhlítandi skýringar hafa fengist á því hvers vegna Íslendingar eiga heimsmet í notkun geðlyfja. Engin ástæða er til að ætla að Íslendingar séu veikari á geði en fólk af öðru þjóðerni. Þúsundir landsmanna eru á geðlyfjum árum saman, án þess að hafa farið í samtalsmeðferð, því að hún er ekki greidd niður af almannatryggingum.

Þetta er umfjöllunarefni fjölmiðlamannsins Sölva Tryggvasonar í pistli hans, sem birtist á bloggsíðu hans í dag undir fyrirsögninni: Heimsmet í samtalsleysi

„Tryggingastofnun niðurgreiðir ekki sálfræðimeðferð á Íslandi, en tímar hjá geðlæknum eru niðurgreiddir. Meðaltími hjá sálfræðingi kostar einhvers staðar á bilinu 8-12 þúsund krónur. Fyrir þá sem eru komnir með afsláttarkort kostar tími hjá geðlækni að minnsta kosti tvöfalt minna að jafnaði, þar sem hið opinbera kemur að því að niðurgreiða þá þjónustu. Þessi mikli munur á kostnaði gerir það að verkum að flestir Íslendingar velja geðlækna fram yfir sálfræðinga ef þeir eiga í geðrænum vanda,“ skrifar Sölvi.

Hann segir að stór hluti geðlækna hér á landi stundi ekki samtalsmeðferð, heldur gefi þeir sjúklingum eingöngu lyf. Hann hafi fengið þessar upplýsingar eftir að hafa rætt við tugi starfsmanna í geðheilbrigðisgeiranum og fjölda skjólstæðinga geðlækna.

Geðheilsa á að vera hluti af heilbrigðiskerfinu

„Að sjálfsögðu er ekki hægt að alhæfa í þessum efnum og á Íslandi eru líka geðlæknar sem eru mjög færir í samtalsmeðferð og stunda hana af alúð. En þeir eru því miður minnihlutinn. Ég leyfi mér að fullyrða það miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið yfir margra mánaða tímabil,“ skrifar Sölvi.

„Geðheilsa á að vera hluti af heilbrigðiskerfinu og er það víðast hvar í löndunum í kringum okkur. Þeir peningar sem fara í að niðurgreiða samtalsmeðferðir ættu að skila sér margfalt til baka, enda er varanleg örorka vegna geðsjúkdóma á hraðri uppleið á Íslandi og kemur til með að sliga kerfið ef fram heldur sem horfir.“

Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður.
Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert