Ragnar stendur við ummæli sín

Ragnar Arnalds, fv. ráðherra og félagi í Vinstri grænum, stendur við gagnrýni sína á kosningu um ályktanir um Evrópumál á landsfundi VG á sunnudaginn var.

Eins og rakið hefur verið á mbl.is telur Ragnar að niðurstaða kosningarinnar endurspegli ekki vilja meirihluta flokksmanna.

Landsbyggðarfólk í VG hafi margt verið farið af fundinum þegar skrifleg atkvæðagreiðsla um tvær ályktanir fór fram.

Tekist á um tvær ályktanir

Var annars vegar um að ræða ályktun um að efna bæri til þjóðaratkvæðagreiðslu eftir alþingiskosningarnar 27. apríl um framhald aðildarviðræðna við ESB og hins vegar ályktun um að setja bæri viðræðunum tímamörk.

Er þá átt við að þeim lyki þegar ár er liðið á næsta kjörtímabil. Var seinni ályktunin samþykkt en sú fyrri felld.

Var þessi túlkun Ragnars gagnrýnd, m.a. af Katrínu Bessadóttur, upplýsingafulltrúa VG, á mbl.is.

11 atkvæða meirihluti segi lítið 

Ragnar kveðst aðspurður standa við ofangreind ummæli sín, en hann átti sæti í umræðuhópi VG um utanríkismál.

„Ég hef fullyrt að sú samþykkt sem gerð var um ESB-málið á landsfundi VG með 11 atkvæða meirihluta segi lítið um vilja flokksmanna eða afstöðu þeirra hundraða fulltrúa sem sóttu landsfundinn. Tölurnar tala sínu máli: Samkvæmt fundargögnum voru skráðir fulltrúar 405. Á laugardeginum greiddu 249 atkvæði í kosningum. Umræðuhópurinn sem tillögurnar komu frá lauk störfum síðla á laugardegi. Atkvæðagreiðslur um þær tillögur fóru fram milli kl 15 og 16 daginn eftir og þá greiddu 159 atkvæði.

Ljóst er að margir fulltrúar sem áttu langt heim að sækja yfirgáfu fundinn áður en til atkvæðagreiðslunnar kom á sunnudeginum. Það skýrir af hverju svo miklu færri greiða atkvæði þann dag en daginn áður. Um þetta þarf ekki að deila,“ segir Ragnar sem vekur athygli á grein sinni um málið á vef Vinstrivaktarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert