30 milljarðar á ári í umferðarslys

Umferðarslys kosta samfélagið háar fjárhæðir
Umferðarslys kosta samfélagið háar fjárhæðir Umferðarstofa

Brynjólfur Mogensen, dósent og yfirlæknir á bráðasviði Landspítala háskólasjúkrahúss kynnti í dag niðurstöður úr rannsókn sinni á kostnaði við umferðarslys á Íslandi árið 2009. Hann segir varlega áætlað að heildarkostnaður samfélagsins af umferðarslysum sé 30 milljarðar króna á ári. Brynjólfur kynnti niðurstöðurnar á Bráðadegi bráðasviðs Landspítalans sem haldinn var í dag.

„Samkvæmt okkar niðurstöðum fyrir árið 2009 kostuðu umferðarslys samfélagið á bilinu 22 til 23 milljarða, á verðlagi þess árs. Framreiknað til ársins í ár lætur nærri að það séu um 30 milljarðar ár hvert,“ segir Brynjólfur.

„Við töluðum við tryggingafélögin og fjölmarga aðila. Allir þeir sem við nálguðumst voru mjög fúsir til að veita okkur þau gögn sem við báðum um,“ segir Brynjólfur.

„Niðurstaðan er einfaldlega sú að kostnaðurinn fyrir árið 2009 var um það bil 23 milljarðar króna allt í allt. Sama hvaða aðferð er notuð til að reikna þennan kostnað, upphæðin verður alltaf gífurlega há. Þessi tala uppreiknuð fyrir daginn í dag er í kringum 29 til 30 milljarða. Inni í þessari tölu er allur kostnaður, kostnaður heilbrigðiskerfisins, kostnaður lögreglu og slökkviliðs, kostnaður við eignatjón, bætur tryggingarfélaga og svo framvegis. Það er sú upphæð, 30 milljarðar, sem hefði sparast ef einstaklingurinn hefði ekki orðið fyrir þessu tjóni,“ segir Brynjólfur. 

Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarinnar er kostnaður lögreglu, slökkviliðs og heilbrigðiskerfisins ekki ýkja mikill, en beinn og óbeinn kostnaður tryggingarfélaga mjög mikill, eða tæp 93% af heildarkostnaði umferðarslysa. „Svo furða menn sig á af hverju iðgjöld eru há.“

Þurfum nýja sýn á umferðarmál

„Til að lækka þennan kostnað verðum við sem ökumenn og þjóð að taka höndum saman og einfaldlega keyra betur. Það er erfitt verk að vinna, en tvímælalaust þess virði. Við eigum umferðaráætlun um hvað við ætlum að gera í framtíðinni, en ég er þeirrar skoðunar að við eigum að skipta henni út fyrir áætlun sem kallast Núllsýn. Sú stefna byrjaði í Svíþjóð og hún gengur meira út á mannfólkið og einstaklinginn en núverandi stefna. Undir henni yrði lögð fram langtímaáætlun sem fólkið í landinu yrði sátt við. Afleiðingar þess yrðu til dæmis að margumrætt kjördæmapot minnkar,“ segir Brynjólfur.

Samskonar áætlun er meðal annars notuð hjá Landsvirkjun í virkjanaframkvæmdum þeirra og einnig í flugi að sögn Brynjólfs. „Það virðist vera að þær þjóðir sem hafa tekið upp þessa stefnu uppskeri mjög góðan árangur og því ættum við að gera það líka. Vandamálið er að þetta fellur allt undir forvarnir. Vandamálið leysist ekki á einum degi eða tveimur heldur á mannsaldri, og við það minnkar áhugi sumra,“ segir Brynjólfur. 

„Hluti af vandanum er að við höfum ekki langtímaáætlun sem er niðurnjörvuð til langs tíma og unnið er eftir frekar en að menn séu eitthvað að potast í sínu héraði eða kjördæmi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert