Vaxandi líkur á vantrausti

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Ómar

„Með svona yfirlýsingum er hann að sýna lýðræðinu og þjóðinni fádæma vanvirðingu sem aldrei hefur sést fyrr í sögunni. Það verður auðvitað að láta á það reyna hvort meirihlutinn í þinginu taki undir þessi sjónarmið hans.“ Þetta segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, í samtali við mbl.is spurður út í þau ummæli Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, í dag að ljóst væri að ekki yrði hægt að afgreiða frumvarp að nýrri stjórnarskrá á þessu kjörtímabili.

„Það var alltaf í pípunum að formenn flokkanna myndu funda aftur um málið. Við funduðum á fimmtudaginn um þetta og til stóð að funda aftur um helgina hvernig ætti að leysa þetta en Árni er þarna kominn í einhvern algeran einleik og þeir þingmenn í VG og Samfylkingunni sem ég hef talað við eru bara alls ekkert sammála honum. Þannig að líkurnar á vantraust fari í gegn hafa aukist,“ segir hann.

„Miðað við það sem ég heyri innan úr Samfylkingunni má alveg eins búast við því að einhverjir þingmenn láti sig vanta ef vantrauststillaga kemur til atkvæða,“ segir Þór. Spurður hvort hann reikni með að leggja slíka tillögu fram aftur segist hann ekki hafa ákveðið það. „En eins og ég segi þá hafa líkurnar á því aukist umtalsvert nema Árni Páll og þingmenn Samfylkingarinnar sjái að sé í þessu máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert