Landnotkun verði háð leyfi ráðherra

Ekki verður heimilt að skipta út 5 hektara spildum úr …
Ekki verður heimilt að skipta út 5 hektara spildum úr jörð án leyfis ráðherra verði frumvarp til breytinga á jarðalögum að veruleika.

Óheimilt verður að breyta landnotkun á landbúnaðarsvæði sem er 5 hektarar eða stærra, nema leyfi nýsköpunar- og atvinnuvegaráðherra liggi fyrir verði frumvarp til breytinga á lögum númer 81/2004 að lögum, en frumvarp ráðherra þess efnis liggur nú fyrir Búnaðarþingi til umsagnar.

Landnýting á hendi ráðherra

„Ef land undir 5 hekturum að stærð telst sérlega gott ræktunarland og hentar vel til landbúnaðar eða vegna legu sinnar telst að öðru leyti mikilvægt út frá matvælaframleiðslu skal jafnframt óskað leyfis ráðherra áður en breyting á skipulagi er heimiluð,“ segir í frumvarpsdrögunum sem lögð voru fyrir ríkisstjórn þann 1. mars 2013.

Þar segir einnig að ráðherra skuli leggja fyrir Alþingi til samþykktar fyrir 31. desember 2015 tillögu til þingsályktunar um nýtingu landbúnaðarlands á Íslandi - svokallaða „landnýtingarstefnu stjórnvalda“ til 12 ára.

„Skal landnýtingarstefnan endurskoðuð á fjögurra ára fresti. Í landnýtingarstefnu skal greina frá stefnu stjórnvalda um nýtingu landbúnaðarlands með hliðsjón af markmiðum laga þessara. Ákvarðanir stjórnvalda er tengjast lögum þessum skulu auk markmiða laga þessara byggja á landnýtingarstefnu stjórnvalda,“ segir í frumvarpsdrögunum.

Verður erfiðara að skipta út lóð undir íbúðarhús

Þar segir einnig: „Óheimilt er að skipta út úr landi lögbýlis lóð undir íbúðarhúsi lögbýlisins eða öðrum lóðum undir mannvirkjum sem lögbýlinu tengjast og eru nauðsynleg í búrekstri þess. Séu fleiri en eitt íbúðarhús á lögbýli er þó heimilt að skipta út úr landi lögbýlisins lóð undir þau.“

Frétt þessa efnis má finna á vef ráðuneytisins hér ásamt frumvarpinu og athugasemdum við það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert