Enginn meðal-Jón

Sigurlaug Sverrisdóttir, hótelstýran á nýju fjögurra stjörnu hóteli á Nesjavöllum, …
Sigurlaug Sverrisdóttir, hótelstýran á nýju fjögurra stjörnu hóteli á Nesjavöllum, Ion Luxury Adventure hotel, hefur verið á ferð og flugi undanfarna tvo áratugi enda á hún erfitt með að hafa lítið fyrir stafni. Rax / Ragnar Axelsson

Sigurlaug Sverrisdóttir, hótelstýran á nýju fjögurra stjörnu hóteli á Nesjavöllum, Ion Luxury Adventure hotel, hefur verið á ferð og flugi undanfarna tvo áratugi enda á hún erfitt með að hafa lítið fyrir stafni. Hún hefur verið flugfreyja, skipulagt ævintýraferðir í Sviss, sett á laggirnar flugfreyjunám, tekið þátt í þríþraut og gengið yfir alpana, svo fátt eitt sé nefnt.

Hið nýja Ion hótel fer ekki framhjá nokkrum manni þar sem það gægist fram úr hrauninu á Nesjavöllum. Hefur yfir sér blæ ævintýra. Þegar stigið er út úr bílnum í hlaðinu fyllir hveralyktin vit og fullkomnar upplifunina af landinu okkar, þessu tæra en hrjúfa djásni. Það er helst að veðrið villi um fyrir manni, á að vera 9 stiga hiti á Celcius í endaðan febrúar? Ætli það sé ekki hið nýja Ísland, fyrst menn eru á annað borð byrjaðir að taka til í landinu má alveg lappa upp á veðrið í leiðinni.

Í lobbíinu er hótelstýran sjálf, Sigurlaug Sverrisdóttir, að spjalla við tvo gesti. Í ljós kemur að það eru bresk hjón að halda upp á fjörutíu ára brúðkaupsafmæli. „Já, ég er mjög umburðarlyndur og þolinmóður maður að eðlisfari. Þessi stúlka hérna er einstaklega heppin,“ segir bóndinn kíminn á svip. Frúin glottir og Sigurlaug skellir upp úr. Ekkert jafnast á við breskan húmor. Þau hafa áhuga á að komast í hvalaskoðun og Sigurlaug gengur án vífilengja í málið. Hringir tvö símtöl og allt er klárt. „Hvort viljið þið fara í dag eða á morgun?“ Hjónin þakka pent fyrir sig með handabandi og bóndinn kveður Sigurlaugu með þeim orðum að vonandi sjáist þau aftur að ári. „Þessi staður er yndislegur!“

Ekki er til betri auglýsing en ánægðir viðskiptavinir og Sigurlaug segir hið nýja hótel leggja mikið upp úr hlýju viðmóti og persónulegri en um leið faglegri þjónustu. Stífleiki og kuldi eigi aldrei við. „Þessi ágæti maður,“ segir hún, „var búinn að leggja mikið á sig til að gleðja konuna sína á þessum merku tímamótum. Kaupa fjögurra rúbína hring sem hann bað okkur að bera fram með eftirréttinum. Frúin var að vonum í skýjunum. Þess utan sendum við þeim freyðivín og blóm inn á herbergi, sem hann hafði ekki hugmynd um. Þau voru í skýjunum með þetta.“

Gekk yfir alpana

Sigurlaug Sverrisdóttir er Seltirningur í húð og hár, dóttir hjónanna Sverris Hannessonar, sem starfað hefur í áratugi hjá Samskipum, á sjó og í landi, og Helgu Vallýjar Björgvinsdóttur, ritara bæjarstjóra á Seltjarnarnesi og prjónakonu, en Sigurlaug sýnir mér stolt ullarvörur eftir móður sína sem hægt er að kaupa á Ion-hótelinu.

Sigurlaug er fædd 1. mars 1973 og varð því fertug í fyrradag, föstudag. Viðtalið fór fram fáeinum dögum áður og þá hafði Sigurlaug ekki ákveðið endanlega hvernig hún ætlaði að fagna tímamótunum. „Það hefur verið brjálað að gera að undanförnu og ætli ég verðlauni mig ekki með spa á föstudaginn og skelli mér svo á skíði á laugardaginn. Það hefur alltof lítill tími gefist til þess í vetur.“

Sigurlaug er ekki aðeins forfallin skíðamanneskja heldur ann hún útivist almennt. Hún hjólar, hleypur, syndir, gengur á fjöll, veiðir í ám og vötnum og Guð má vita hvað. „Ég hef alltaf æft af kappi en lítið hefur farið fyrir því síðustu mánuði vegna anna. Nú sé ég loksins fram úr þessari törn og þá tek ég upp þráðinn,“ segir Sigurlaug sem meðal annars hefur tekið þátt í þríþraut í Lausanne í Sviss, hafnaði meira að segja í öðru sæti í sínum aldursflokki.

Af öðrum þrekraunum sem hún hefur lagt á sig var að fara svonefnda „Haute Route“ eða háu leiðina í Ölpunum á fjallaskíðum. Þá ferð fór Sigurlaug ásamt eiginmanni sínum, Halldóri Hafsteinssyni, og fleirum síðastliðinn vetur. Um er að ræða vikuferð sem hófst í Chamonix, við rætur Mount Blanc og endaði í Zermatt, við rætur Matterhorn. „Við þurftum að klífa heilmikið og vorum eiginlega meira með skíðin á bakinu en fótunum,“ rifjar hún upp. „Þetta var mikil þolraun og án efa ein skemmtilegasta ferð sem ég hef farið í um dagana.“

Gleymið ekki „ælunni“!

Franskur leiðsögumaður fór fyrir hópnum og á undirbúningstímanum hjó Sigurlaug eftir því að hann skrifaði þeim einatt á bjagaðri íslensku. „Fyrst héldum við að hann væri bara að þýða upplýsingarnar í Google Translate. Klóruðum okkur til dæmis mikið í höfðinu þegar hann brýndi fyrir okkur að gleyma ekki „ælunni“. Síðar kom í ljós að hann meinti „ýlunni“, það er að segja snjóflóðaýlunni. Þegar við hittum manninn svo loksins kom í ljós að hann talaði ljómandi góða íslensku eftir að hafa verið hér skiptinemi í tólf mánuði fjórtán árum áður.“

Á nóttunni var gist í þar til gerðum skálum, þar sem göngugarparnir höfðu trakteringar. „Fjallamenningin er mjög flott í Sviss og í þessum skálum er ekki aðeins boðið upp á gistingu heldur líka þriggja rétta málsverð. Það er ekki í kot vísað. Þetta ættum við Íslendingar að taka okkur til fyrirmyndar enda möguleikarnir miklir á hálendinu hér heima.“

Sigurlaug hóf störf sem flugfreyja hjá Atlanta liðlega tvítug og vann þar í þrettán ár, fram til ársins 2007. Á þeim tíma ferðaðist hún vítt og breitt um heiminn. Fór meðal annars öll árin í pílagrímaflug. „Allir múslimar þurfa að fara í slíkt ferðalag að minnsta kosti einu sinni á ævinni. Ég hlýt því að standa vel að vígi langi mig að ganga íslam á hönd,“ segir hún hlæjandi.

Enda þótt gaman sé að kynnast ólíkum menningarheimum kveðst Sigurlaug fljótlega hafa áttað sig á því á ferðum sínum hvílík forréttindi það séu að fæðast á Íslandi. Fáir íbúar heimsins búi við slíkt frelsi og velsæld.

Eitt atvik situr sérstaklega í henni. Það átti sér stað á flugvelli í Nígeríu. „Þegar við lentum beið eftir okkur broshýr ungur drengur sem langaði að skoða flugvélina. Hann bauð af sér svo góðan þokka að ég gat ekki ímyndað mér annað en að það væri í lagi. Þá skarst vörður á flugvelllinum hins vegar í leikinn og lét sér ekki nægja að vísa drengnum frá heldur þurfti hann líka að slá hann með byssuskeftinu. Réttlætiskennd minni var gróflega misboðið og það sauð hreinlega á mér. Flugstjórinn kom þó í veg fyrir að ég skipti mér að atvikinu enda hefði það örugglega ekki haft góðar afleiðingar.“

Eftir að Sigurlaug hætti störfum sem flugfreyja stofnaði hún eigið félag, SEP, í þeim tilgangi að þjálfa flugfreyjur í Lettlandi, Litháen og víðar. Áherslan í því námi er á öryggisþáttinn. Þá lagði hún stund á heilsutengt nám í New York og hafði veg og vanda af undirbúningi flugfreyjunámsins hjá Keili.

Viðskiptafélaginn fórst

Halldór er viðskiptafræðingur að mennt og var um árabil fjármálastjóri Atlanta, þar sem þau Sigurlaug kynntust.

Árið 2009 urðu straumhvörf í lífi þeirra hjóna þegar náinn vinur og viðskiptafélagi, Hafþór Hafsteinsson féll frá. Þetta fékk þau hjónin til að endurmeta lífsgildin og skipuleggja lífsmynstur sitt uppá nýtt.

Eftir þetta var félagið ACP stofnað ásamt Davíð Mássyni og Garðari Forberg með það fyrir augum að fara út í flugrekstur. ACP festi síðan kaup á 50% hlut í litháíska flugfélaginu Avion Express sem meðal annars leigði WOW Air fyrstu vélarnar á síðasta ári. Félagið á nú átta Airbus-vélar sem það leigir öðrum flugfélögum. „Við höfum mikla reynslu af flugi og þegar þetta tækifæri kom upp létum við ekki segja okkur það tvisvar,“ segir Sigurlaug.

Síðla árs 2009 fluttu Sigurlaug og Halldór til Sion, höfuðborgar kantónunnar Valais í Sviss. Borgin er í hjarta Alpanna og stutt til allra átta. Sannkölluð paradís skíðamannsins.

Í Sion stofnuðu þau félag, Ibex Lodges, sem heitir eftir frægustu fjallageitinni í ölpunum. Það sérhæfir sig í útleigu húsnæðis, að sumri jafnt sem vetri. Þá tók Sigurlaug að sér að skipuleggja ferðir af ýmsum toga fyrir Íslendinga, svo sem heilsuferðir, jógaferðir, hráfæðisvikur og fjallgönguferð fyrir konur. „Síðastnefnda ferðin var mjög skemmtileg. Ég bjóst við svona tíu konum en þær urðu 26 og allar hæstánægðar.“

Fyrir hálfu þriðja ári eignuðust Sigurlaug og Halldór sitt fyrsta barn, dóttur sem skírð var Alexía Helga. „Hafandi heitið Sigurlaug í útlöndum öll þessi ár vildi ég gera dóttur minni þann greiða að gefa henni alþjóðlegt nafn,“ segir Sigurlaug og hlær við tilhugsunina um framburðinn. Raunar notast hún mest við gælunafn sitt. „Ég hef alltaf verið kölluð Laulau, eins og amma.“

Ígildi meistaranáms

Alexía Helga er eina barnabarn foreldra Sigurlaugar og segir hún þá staðreynd hafa spilað inn í þegar þau Halldór ákváðu að flytja aftur heim á síðasta ári. Þau hafa þó hvergi sagt skilið við Sviss en hugmyndin er að dveljast þar reglulega í framtíðinni, einkum að vetrarlagi. „Ég hefði til dæmis ekkert á móti því að dóttir mín færi í skóla í Sviss, alla vega að hluta. Fjögur tungumál eru töluð í landinu og eins og við vitum er fátt mikilvægara en tungumálanám á þessum síðustu tímum.“

Rekstur Ion-hótelsins er ekki eina verkefni hjónanna hér heima um þessar mundir. Þau eiga einnig hlut í ferðaskrifstofunni Arctic Adventures og er ætlunin að þetta tvennt vinni náið saman, hótelið og ferðaskrifstofan enda markhópurinn nátengdur. Að auki koma hjónin að leigu á Þverá og Kjarrá næstu fimm árin en eins og fram hefur komið eru þau bæði forfallið veiðifólk.

Áður en Ion-verkefnið náði heljartökum á Sigurlaugu ætlaði hún að fara í meistaranám í lögfræði. Af því varð ekki. „Ég ákvað að byggja hótel í staðinn og hef örugglega lært alveg álíka margt á því – líklega meira,“ segir hún brosandi.

Verkefnin eru mörg og fjölbreytnin mikil. Spurð hvort þetta sé ekki með nokkrum ólíkindum skellir Sigurlaug upp úr. „Það getur vel verið. Ég er bara léleg í því að hafa lítið fyrir stafni!“

Alltaf að leita að tækifærum

Sigurlaug og eiginmaður hennar, Halldór Hafsteinsson, keyptu Hótel Hengil af Orkuveitunni í árslok 2010 en Stefnir fjárfestingasjóður á 50% á móti þeim í húsnæðinu. Rekstrarfélagið er aðskilið en fjárfestingafélagið Gistiver hefur aðkomu að því, auk hjónanna. Sigurlaug er ekki ókunnug hótelrekstri en hún rak um tíma lúxusgistiheimili á Túngötu í Reykjavík.

Spurð um ástæðuna fyrir kaupunum segir Sigurlaug þau lengi hafa dreymt um að eignast sumarhús á eða við Þingvelli sem er að hennar dómi fallegasti staður á Íslandi, fyrir utan Mývatn. „Það er bara svo langt þangað,“ segir hún brosandi. Sumarhúsið losnaði að vísu ekki en það gerði hótelið, þannig að þau létu bara slag standa. „Ég held að enginn sem þekkir okkur hafi orðið undrandi á því. Við erum alltaf að leita að nýjum tækifærum.“

Nafnið Ion er enska heitið yfir jón (í efnafræðilegum skilningi). Í því felst einnig orðaleikur, „I on Iceland“, sem erlendir gestir geta tengt við. Þá enda fjölmörg nafnorð í enskri tungu á -ion, svo sem „exploration“, „sophistication“ og „relaxation“, sem eru einkunnarorð Ion-hótels. „Annars er fólki frjálst að túlka nafnið að vild,“ segir Sigurlaug. „Þannig kom barnabarn Jóns heitins á Nesjum til mín nýverið og þakkaði mér fyrir að nefna hótelið í höfuðið á afa sínum.“

22 herbergi voru í gamla hótelinu en hjónin ákváðu strax að stækka það enda væri það óhagkvæm rekstrareining. Byggt var við hótelið og herbergjum fjölgað í 46. „Það þarf nánast sama starfsmannafjölda til að sinna 46 herbergjum eins og 22.“

Æskuvinkonan teiknaði

Arkitektar voru Erla Ingjaldsdóttir og Tryggvi Þorsteinsson hjá Minarc í Los Angeles en Erla og Sigurlaug eru einmitt æskuvinkonur. „Það var frábært að vinna þetta með þeim en Erla og Tryggvi hafa fengið verðlaun fyrir náttúruvænar byggingar. Þau höfðu aldrei teiknað hótel áður og fannst þetta fyrir vikið mjög spennandi,“ segir Sigurlaug sem þess utan gerði þarfagreiningu og leitaði til margra sérfræðinga á sviði hótelreksturs.

Smám saman vatt hugmyndin upp á sig og breytingarnar urðu á endanum meiri en til stóð í upphafi. „Við veltum þessu mikið fyrir okkur, hvort við ættum að hrökkva eða stökkva. Niðurstaðan var að fara alla leið með breytingarnar enda eru yfirgnæfandi líkur á því að breytingar verði aldrei gerðar geri maður þær ekki strax.“

Eldri byggingunni var breytt að utan sem innan, svo sem með því að klæða hana með steypuplötum í stíl við sjónsteypuna sem prýðir nýbygginguna. „Hótelið fellur mjög vel að umhverfinu og aðkoman er allt önnur en áður. Það verður prýði að þessu til framtíðar.“

Sigurlaug og Halldór voru búsett í Sviss þegar þau keyptu hótelið og byrjuðu á því að leigja reksturinn út. Þegar framkvæmdir fóru af stað varð verkefnið á hinn bóginn hálfu meira spennandi, þannig að þau ákváðu að flytja heim síðasta sumar og taka alfarið við hótelinu sjálf. „Þegar maður leggur svona mikið undir er langbest að fylgja verkefninu eftir sjálfur,“ segir hún.

Hvað varð um veturinn?

Fyrirhugað var að hefja framkvæmdir haustið 2011 en þær drógust vegna veðurs. „Veturinn í fyrra var erfiður og við gátum ekki byrjað að neinu gagni fyrr en í mars á síðasta ári. Eftir það hafa framkvæmdir gengið eins og í sögu, maður hefur varla orðið var við veturinn í vetur. Við erum veðurguðunum ákaflega þakklát,“ segir Sigurlaug en viðurkennir að það hafi verið svolítið strembið fyrir sig, forfallna skíðamanneskjuna, að biðja mánuðum saman um gott veður og lítinn snjó.

Ion-hótelið var opnað 1. febrúar síðastliðinn og segir Sigurlaug viðtökur hafa verið framar öllum vonum. Nýting á gistirými er um 80% fyrsta mánuðinn, nær eingöngu útlendingar. Það hlýtur að teljast góður árangur hjá nýju hóteli um miðjan vetur. Hún þakkar þetta ekki síst mikilli umfjöllun í bresku pressunni, blöðum á borð við Daily Telegraph og The Independent.

„Það hefur verið mikið álag á starfsfólkið okkar sem hefur staðið sig með stakri prýði. Við vissum að þetta yrði mikil törn í febrúar en nú þegar reksturinn er kominn af stað ætti álagið á starfsfólkið að minnka strax í mars og vaktir að verða með eðlilegum hætti. Allir hafa gert þetta með bros á vör enda ekki á hverjum degi sem maður opnar hótel,“ segir Sigurlaug.

Sjálf viðurkennir hún að hafa unnið allt að tuttugu klukkustundir á sólarhring undanfarna þrjá mánuði. „Ég hef verið í öllu, allt frá því að annast reksturinn og ráða starfsfólk yfir í að fylgja á eftir framkvæmdum. Ég hef á tilfinningunni að ég sé komin með Margrétar Thatcher-heilkenni, er beinskeitt og sef bara í fimm klukkustundir á nóttu. Ég er löngu hætt að dansa kringum hlutina, nú eru það bara ákvarðanir og afgreiðslur og fókusinn á stóru myndinni,“ segir Sigurlaug og blaðamaður veltir fyrir sér hvernig hún sé í góðu skapi – að því gefnu að þetta sé úrilla útgáfan!

Vaskur úr endurunnu gúmmíi

Þá er komið að skoðunarferð um hótelið og hún hefst óvænt á klósettinu inn af lobbíinu. „Afsakaðu að ég skuli draga þig hér inn,“ segir Sigurlaug hlæjandi, „en ég má til með að sýna þér svolítið.“

Þar á hún við vaskinn sem er úr endurunnum hjólbörðum en umhverfisvænar lausnir og hugvitssamleg nýting á náttúrulegum efnum eru grundvallarþættir í hönnun og byggingu hótelsins. Hún nefnir einnig lífræn og sanngirnisvottuð (e. fair trade) handklæði og sængurföt í öllum herbergjum, ljós úr endurunnum bylgjupappa og umslög úr endurnýtanlegum pappa utan um aðgangskortin að herbergjunum. „Við reynum að hugsa þetta alla leið í gegn og stefnum á umhverfisvottun fyrir hótelið á næstu mánuðum.“

Athygli vekur að teppi eru á herbergjagöngunum en Sigurlaug segir það hafa verið nauðsynlegt til að hljóðeinangrunar. Teppin eru umhverfisvottuð.

Kapp er best með forsjá í þessu sem öðru en Sigurlaug segir um tíma hafa staðið til að hafa rúmgaflana úr endurunnum hjólbörðum. Frá því var hins vegar horfið þegar menn áttuðu sig á því að á sólbjörtum sumardögum myndi leggja angan frá rúmunum, nú eða fnyk. „Við vildum ekki að fólk vaknaði upp á morgnana haldandi að það væri statt á dekkjaverkstæði,“ segir Sigurlaug hlæjandi. „Þessi umhverfisstefna má ekki snúast upp í andhverfu sína.“

Seint verður sagt að vatnsmál séu í ólestri í og við hótelið en fráveitan er sú fullkomnasta á landinu. Upp á það hefur Sigurlaug pappíra frá heilbrigðiseftirliti Suðurlands.

Fyrirtaks spa-aðstaða er á hótelinu og myndarleg setlaug á palli fyrir utan. Sírennsli er í setlauginni sem þýðir að vatnið endurnýjar sig á sólarhring. Þannig fellur hún undir þá skilgreiningu að vera náttúruleg og fyrir vikið þarf hvorki að nota hreinsiefni né klór. Það kemur sér vel vegna verndunar vatnasviðs og lífríkis Þingvallavatns.

Endalausir möguleikar

Ion-hótelið vill nýta sem mest úr héraði, það á meðal annars við um vinnuafl. „Við leitum eftir að ráða sem flest starfsfólk héðan af svæðinu, ég held það borgi sig alltaf til lengri tíma. Þetta svæði á endalausa möguleika, nægir þar að nefna allt heita vatnið og spennandi væri að byggja upp lón. Útlendingar sem hingað koma gera það fyrst og fremst út af náttúrunni og tærleikanum. Á því eigum við að byggja og markaðssetja Ísland á þeim nótum.“

Sigurlaug er mikil áhugamanneskja um mataræði og heilsu og byggir matseðillinn á veitingastað hótelsins, Silfru, á þeim hugmyndum. Boðið er upp á silung úr Þingvallavatni, sem veiddur er árið um kring, og lambakjöt beint frá býli. Helst vill Sigurlaug sækja lambið á næstu bæi en því miður er enginn bóndi í grenndinni þátttakandi í verkefninu „Beint frá býli“. Sigurlaug segir það standa til bóta, jafnvel strax með vorinu. „Nágrannar okkar hafa tekið okkur vel og fólkið í sveitinni er ánægt með þessa uppbyggingu og okkar áhuga á að eiga bein viðskipti við það.“

Sigurlaug nefnir Sviss, þar sem hún bjó um tíma, til samanburðar. Hvergi á byggðu bóli njóti landbúnaður eins mikilla ríkisstyrkja. „Það er með ráðum gert til að styðja við ferðamennskuna og samvinnan er þverfagleg. Hér á landi er líka fullt af tækifærum í landbúnaði, þar sem matvælin eru hrein og tær. Þróunin er þegar orðin mjög skemmtileg með „Beint frá býli“ og fleiri verkefnum.“

Hún segir Svisslendinga markaðssetja „lúxusvörumerkið“ Sviss af mikilli grimmd, meðal annars fyrir þær sakir að svissneski frankinn sé svo sterkur. „Það fælir ferðamenn frá og fyrir vikið þarf að vinna á móti. Hvað þetta varðar stöndum við miklu betur að vígi, blessuð krónan verður seint sökuð um að vera sterkur gjaldmiðill.“

Hnallþórur á sunnudögum

Yfirkokkur í Silfru er Guðmundur Sverrisson. Þau Sigurlaug kynntust í Sviss en þar bjó Guðmundur og starfaði í tólf ár. „Honum leist það vel á verkefnið að hann ákvað að flytja heim. Fyrstu viðbrögð gesta hafa verið svakalega góð enda Guðmundur matreiðslumaður í hæsta gæðaflokki sem hefur unnið á háklassa veitingastöðum bæði í Sviss og Brussel, þar sem hann var á Seagrill, 2 stjörnu Michelin-stað,“ segir Sigurlaug.

Silfra og Norðurljósabarinn eru ekki einungis ætluð gestum á hótelinu, Sigurlaug vonast líka til að fá gesti úr sumarbústaðabyggðinni á Þingvöllum og frá höfuðborgarsvæðinu. Þetta er ekki nema liðlega hálftíma akstur og styttra á sumrin þegar Nesjavallaleiðin er opin. „Það er upplagt fyrir fólk að líta hér við um helgar í te eða kaffi og hver veit nema hnallþórur verði á borðum á sunnudögum. Þó við séum heilsuvæn megum við ekki gleyma gleðinni.“

Orð að sönnu.

Hið nýja Ion hótel fer ekki framhjá nokkrum manni þar …
Hið nýja Ion hótel fer ekki framhjá nokkrum manni þar sem það gægist fram úr hrauninu á Nesjavöllum. Hefur yfir sér blæ ævintýra. Rax / Ragnar Axelsson
Silfra og Norðurljósabarinn eru ekki einungis ætluð gestum á hótelinu, …
Silfra og Norðurljósabarinn eru ekki einungis ætluð gestum á hótelinu, Sigurlaug vonast líka til að fá gesti úr sumarbústaðabyggðinni á Þingvöllum og frá höfuðborgarsvæðinu. Rax / Ragnar Axelsson
Ion-hótelið var opnað 1. febrúar síðastliðinn.
Ion-hótelið var opnað 1. febrúar síðastliðinn. Rax / Ragnar Axelsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert