Spáð snjókomu á höfuðborgarsvæðinu

Spáð er snjókomu á höfuðborgarsvæðinu á morgun.
Spáð er snjókomu á höfuðborgarsvæðinu á morgun. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Spáð er talsvert mikilli snjókomu á Suðurlandi á morgun. Snjóa mun því á höfuðborgarsvæðinu.

Veðurstofan vekur sérstaka athygli á því að búast megi við snjóbyl sunnanlands á morgun.

Trausti Jónsson veðurfræðingur segir í pistli á bloggsíðu sinni að reiknilíkan amerísku veðurstofunnar spái hríð á höfuðborgarsvæðinu og 15 cm snjósöfnun.

Seint í kvöld fer vindur aftur vaxandi. Áfram él norðan- og norðaustanlands, segir í ábendingum veðurfræðings Vegagerðarinnar.

Norðvestantil fer skafrenningur vaxandi í kvöld og skyggni versnar á nýja leik á Vestjörðum, í Dölum, á Ströndum og víða vestantil á Norðurlandi og við utanverðan Tröllaskaga. Undir Eyjafjöllum og í Mýrdal er spáð hríðarveðri seint í kvöld og áfram í fyrramálið. A 15-20 m/s og síðar 20-25 m/s og því gætir orðið glórulaus bylur á þeim slóðum. Einnig er spáð hríðarveðri á Suðurstrandarvegi og við Grindavík frá því seint í nótt. Óvissa er talsverð um það hve vel inn á land hríðin kemur til með að ná sunnanlands.

Vegir eru auðir á Suðurlandi.

 Á Vesturlandi  er hálka eða hálkublettir nokkuð víða, él og skafrenningur. Hálkublettir eru á Bröttubrekku en hálkublettir og éljagangur á Holtavörðuheiði. Hálka og skafrenningur er á Fróðárheiði. Óveður er á sunnanverðu Snæfellsnesi.

 Slæmt ferðaveður og færð er á Vestfjörðum.  Hálka og skafrenningur er á Þröskuldum, Mikladal, Hálfdán og Kleifaheiði.

Þæfingsfærð og stórhríð er á Klettshálsi og Steingrímsfjarðarheiði. Hálka og skafrenningur er á Gemlufallsheiði, Önundarfirði og Súgandafirði en hálkublettir eða hálka og éljagangur er í Ísafjarðardjúpi og á Innstrandavegi.

 Á Norðanverður landinu er hálka, snjóþekja og skafrenningur og allir vegir færir fyrir vetra búna bíla.

 Á Austurlandi er þæfingsfærð og skafrenningur á Vopnafjarðarheiði og Fjarðarheiði. Snjóþekja og éljagangur er á Oddsskarði en snjóþekja á Fagradal annars er víða þæfingur eða snjóþekja og skafrenningur á Héraði. Hálkublettir og snjóþekja er frá Fáskrúðsfirði í Breiðdalsvík.

Vegir eru auðir á Suðausturlandi.


Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert