Vilja ekki erlend varðskip

Liðsmenn danska varðskipsins Vædderen nota tækifærið og æfa þyrlubjörgun úr …
Liðsmenn danska varðskipsins Vædderen nota tækifærið og æfa þyrlubjörgun úr sjó á ytri höfninni í Reykjavík. Brynjar Gauti

Meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur hafnaði í dag tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks þess efnis að erlend varðskip og flugvélar sem tekið hafi hér þátt í björgunaraðgerðum séu boðin velkomin til Reykjavíkur. Þess í stað var samþykkt breytingartillaga um að best sé að sinna borgaralegum öryggismálum á vettvangi borgaralegra stofnana í anda friðar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks furðuðu sig á þessu og að erlend varðskip, sem margoft hafa tekið þátt í björgunaraðgerðum hér við land og eru í samstarfi við Landhelgisgæsluna, séu ekki velkomin til Reykjavíkur.

Sjálfstæðismenn létu því bóka, að þeir harmi að borgarfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hafni tillögu um að bjóða varðskip erlendra vinaþjóða velkomin til Reykjavíkur. „Sú „breytingartillaga“ sem fulltrúar þessara flokka samþykktu í krafti meirihluta síns, er í raun ný tillaga, lögð fram í því skyni að draga athygli frá aðalatriðum upphaflegrar tillögu.“

Tillögurnar tvær

Upphafleg tillaga Sjálfstæðisflokksins hljóðaði svo: „Borgarstjórn Reykjavíkur fagnar þeim árangri sem Landhelgisgæslan hefur náð við að efla samstarf sitt við björgunaraðila erlendra vinaþjóða. Dönsk og norsk varðskip og flugvélar, sem hafa margoft tekið þátt í björgunaraðgerðum hér við land, hafa reglulega viðkomu í Reykjavík og taka þá þátt í björgunaræfingum með Landhelgisgæslunni. Nú sem fyrr býður borgarstjórn slíka aðila velkomna til Reykjavíkur og fagnar áformum um aukið björgunarsamstarf vinaþjóða við norðanvert Atlantshaf.“

Tillaga meirihlutans, sem var samþykkt: „Borgarstjórn Reykjavíkur fagnar þeimárangri sem náðst hefur við uppbyggingu björgunar- og almannavarnastarfs á liðnum árum bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Starfsemi og styrkur Landhelgisgæslu Íslands, björgunarsveita og annarra viðbragðsaðila er góð sönnun þess að best er að sinna borgaralegum öryggismálum á vettvangi borgaralegra stofnana í anda friðar. Borgarstjórn leggur í því samhengi áherslu á fyrir samþykktir og stefnumörkun í þessum efnum, um að borgin verði leiðandi á sviði friðarmála.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert