Enn víða vonskuveður

Vonskuveður er á Suðurlandi og víðast hvar ekki ferðaveður. Sömu sögu er að segja um Vesturland og stórhríð er víða á Snæfellsnesi. Á Vestfjörðum er ekkert ferðaveður og mjög slæmt veður er einnig á Norðurlandi og Austurlandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar kemur til með að hlýna upp undir frostmark á láglendi suðvestanlands í kvöld og mun þá slá verulega á skafrenning. Austan Reykjavíkur á Mosfellsheiði og eins Hellisheiði og í Þrengslum verður austanstormur, skafrenningur og lítið skyggni allt til morguns.

Hviður verða á Kjalarnesi 30-40 m/s fram yfir miðnætti. Undir Eyjafjöllum verður hríð, lítið skyggni og stormur með hviðum meira og minna til morguns og snarpar hviður einnig í Öræfasveit. Á Vesturlandi og Vestfjörðum lagast markvert í kvöld, rofar til en áfram hvasst og skafrenningur. Norðan- og austanlands fer einnig hægt skánandi, einkum í nótt samfara heldur minnandi veðurhæð þar.

Ófært eða þungfært

Það eru hálkublettir og skafrenningur á Hellisheiði, í Þrengslum og á Sandskeiði. Búið er að opna veginn um Kjalanes en þar eru hálkublettir og óveður. Á höfuðborgarsvæðinu er víðast hvar mjög blint og hálka. Stórhríð og flughálka er á Reykjanesbraut og á Suðurnesjum.

Vonskuveður er víða á Vesturlandi. Stórhríð er víða á Snæfellsnesi. Fróðárheiði er ófær og þungfært er milli Búða og Hellna og einnig á milli Grundarfjarðar og Hellissands. Þungfært er einnig á Svínadal og stórhríð á Skarðsströnd.

Á Vestfjörðum er ekkert ferðaveður, fjallvegir eru flestir ófærir og einnig er víða slæm færð í byggð.

Mjög slæmt veður er einnig á Norðurlandi. Stórhríð í Húnavatnssýslum og á Þverárfjalli og eins á Tröllaskaga. Ófært er á Siglufjarðarvegi, í Héðinsfirði og í Ólafsfjarðarmúla. Öxnadalsheiði er ófær, ófært er til Grenivíkur og á Víkurskarði.

Þæfingsfærð  og stórhríð er í Ljósavatnsskarði en snjóþekja og stórhríð á Tjörnesi og óveður áfram þaðan austur á Raufarhöfn. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Hófaskarði.

Það er ófært á Möðrudalsöræfum, Fjarðarheiði, Vopnafjarðarheiði og Vatnsskarði eystra. Stórhríð er á Jökuldal og þæfingur. Þungfært og skafrenningur  er á Oddsskarði. Versnandi veður er með austurströndinni.

Óveður er í Öræfum og alls ekki ferðaveður, grjótfok og mikið um rúðubrot á bílum sem þar hafa verið á ferð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert