Segja litla klíku taka völdin af þjóðinni

Þingmenn Hreyfingarinnar, Margrét tryggvadóttir, Birgitta Jónsdóttir og Þór Saari.
Þingmenn Hreyfingarinnar, Margrét tryggvadóttir, Birgitta Jónsdóttir og Þór Saari. mbl.is/Ómar

Þingmenn Hreyfingarinnar lögðu fram bókun á fundi forsætisnefndar Alþingis í dag þar sem því er haldið fram að lítill hópur þingmanna með forseta þingsins, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, í fararbroddi ætli að hunsa niðurstöður þjóðaratkvæðisins um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.

Fram kemur með þessu muni skapast fordæmalausar aðstæður hér á landi þar sem lítil klíka á Alþingi hafi tekið völdin af þjóðinni og er ábyrgðinni á því lýst á hendur forseta þingsins og formönnum stjórnarflokkanna, Árna Páli Árnasyni og Katrínu Jakobsdóttur.

Bókun þingmanna Hreyfingarinnar:

„Í lýðræðisríki kemur allt vald frá þjóðinni. Nú er orðið ljóst að lítill hópur þingmanna með forseta Alþingis í forsvari ætlar að hunsa niðurstöður þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór hinn 20. október síðastliðinn þar sem yfirgnæfandi meirihluti eða 2/3 ákvað að frumvarp Stjórnlagaráðs yrði grundvöllur að nýrri stjórnarskrá Íslands.

Ef framganga forseta þingsins verður ofan á munu skapast hér á landi fordæmalausar aðstæður þar sem lítil klíka fólks á Alþingi hefur tekið völdin af þjóðinni.

Slíkar aðstæður fyrirfinnast ekki í lýðræðisríkjum heldur í ríkjum með annars konar stjórnarfar og sem lýðveldið Ísland hefur hingað til ekki tilheyrt.

Þingmenn Hreyfingarinnar lýsa fullri ábyrgð á slíku ástandi á hendur forseta Alþingis og formönnum Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert