Vilja ekki breytingar frá A til Ö

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það virðist vera staðan að æ fleiri átti sig á því að óraunhæft er að ljúka málinu á þeim fáu dögum sem eftir eru á þessu þingi. Og ég er feginn, vegna þess að það er mín skoðun að það hefði verið óheyrilegur glannaskapur að ætla að ljúka málinu á jafnfáum dögum og um er að ræða,“ sagði Birgir Ármannsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins þegar hart var tekist á um stjórnarskrárfrumvarpið á Alþingi í dag. 

Birgir sagðist feginn því að það sjónarmið virtist ætla að verða ofan á „en ég segi þetta auðvitað með fyrirvörum því staðan er óræð [...] Við erum að tala um málið í punktstöðu og punkturinn er sá að útlit er fyrir að frumvarpinu eins og það liggur fyrir verði ekki lokið á þessu þingi“.

Þingmenn Samfylkingarinnar og Hreyfingarinnar fordæmdu sjálfstæðismenn í umræðunum fyrir að standa málinu fyrir þrifum án þess þó að leggja sjálfir fram breytingartillögu til lausnar málinu. 

Ósátt við nálgunina frá upphafi

Birgir svaraði því til að ástæða þess að minnihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefði ekki lagt neinar tillögur fram væri sú að þingmennirnir væru ósammála þeirri nálgun sem meirihlutinn hefði gengið út frá allan tímann. Hann sagðist ósáttur við þá nálgun.

„Það hefur ekki verið mín skoðun að þörf væri á því að endurskoða íslensku stjórnarskrána frá A til Ö. Það er mitt mat sem stjórnmálamaður að núgildandi stjórnarskrá hafi í meginatriðum reynst vel [...]

Við erum einfaldlega ekki sátt við að leggja upp með málið með þessum hætti og viljum því ekki koma með einhverja plástra á einstaka greinar [...] Við höfum talið óþarfa að breyta öllum ákvæðum núgildandi stjórnarskrár og að bæta 35 nýjum við. Sá ágreiningur stendur enn.“ Birgir sagðist sömuleiðis gangast glaður við því að hafa ekki talið tilefni til þeirra breytinga á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar sem lagðar eru til. 

Stjórnarskrármálinu rústað?

Álfheiður Ingadóttir þingmaður Vinstri grænna sagðist ekki reiðubúin á þessari stundu „að óska Sjálfstæðisflokknum til hamingju með að rústa stjórnarskrármálinu“. Sagði hún orð Birgis Ármannssonar þrátt fyrir allt vekja með sér nokkra von um að ljúka mætti málinu með einhvers konar samstöðu á þinginu.

Kallaði hún jafnframt eftir því enn og aftur að heyra hverjar tillögur Sjálfstæðisflokksins væru. Sagðist hún telja að sjálfstæðismenn gætu verið meiri þátttakendur í málinu og að einstakir fulltrúar flokksins væru tilbúnir til þess.

Sorg í hjarta yfir stjórnarskránni

Álfheiður Ingadóttir
Álfheiður Ingadóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert