Dagvörur að klárast í Eyjum

Dagvörur í Vestmannaeyjum eru að verða búnar í flestum verslunum …
Dagvörur í Vestmannaeyjum eru að verða búnar í flestum verslunum en Herjólfur hefur ekki siglt síðan í byrjun vikunnar. Brynjar Gauti

„Við erum svona um það bil að verða mjólkurlausir. Það eru nokkrir lítrar eftir. Mjólkurvörur eru að klárast og kjötvörur,“ segir Ingimar Heiðar Georgsson, verslunarstjóri Vöruvals í Vestmannaeyjum. Herjólfur hefur ekki gengið síðan á þriðjudag og því er að verða skortur á ýmsum dagvörum.

„Við fáum engar vörur fyrr en seinni partinn á morgun - í fyrsta lagi,“ segir Ingimar.

Tveggja daga skammtur af brauði búinn

„Ég er núna staddur uppi í frystiklefa hjá mér að ná í frosin brauð til að bjarga málunum. Það eru öll brauð að klárast. Rúmlega tveggja daga skammtur sem við tókum í morgun er búinn,“ segir Ingimar.

Í Vestmannaeyjum er bakarí en þar sem Krónan kaupir sitt brauð af höfuðborgarsvæðinu og það hefur ekki borist þá kaupa Eyjamenn nú einungis brauð þaðan sem er að verða á þrotum í dag.

„Eins dauði er annars brauð, eins og það stendur,“ segir Ingimar.

„Við höfum ekki fengið vörur síðan á þriðjudagskvöld,“ segir Ingimar og bætir við: „Þessi svokallaða dagvara er að klárast.“

Reiknar með að dagvörur klárist fyrir kl. 17.30 í dag

Ingimar sagði að það kæmi fragtskip úr Reykjavík í kvöld en vissi ekki hvort það kæmu vörur með því.

„Það er skip sem tekur fisk og fer til útlanda. Þeir hafa stundum tekið vörur og það kemur kannski eitthvað með því. En það eru Samskip og Eimskip sér um flutninga á mjólkinni hérna þannig að því verður ekki til að dreifa,“ segir hann.

Ingimar reiknar með því að helstu dagvörutegundir verði á þrotum í búðinni um klukkan hálfsex í dag. Hann segir þó verslunina ennþá vel setta hvað varði frysti- og þurrvörur.

Svipuð saga hjá öðrum verslunum

Í Eyjum eru auk Vöruvals, Krónuverslun og Kjarval. Þær eru allar háðar ferjusiglingum með vörur.

Hjá Kjarvali er allt brauð á þrotum og mjólkur- og kjötvörur að klárast. Ekkert ferskt hakk til eða hamborgarar. En nóg er ennþá af frystivörum.

Þau svör fengust hjá Krónunni að brauðið væri að klárast en ennþá væru til mjólkurvörur sem vonir stæðu til að myndu duga í dag og á morgun að því gefnu að fólk byrjaði ekki að hamstra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert