„Myndi aldrei leggjast með börnum“

Úr samtali mannsins við það sem hann hélt að væri …
Úr samtali mannsins við það sem hann hélt að væri tólf ára stúlka. Skjáskot/Málið

„Mér þætti það svakalegt ef ég yrði settur út úr fjölskyldunni, ef þetta kæmist upp. Þá væri bara svartnætti,“ sagði maður sem sóttist eftir að hitta tólf ára stúlku eftir að hafa rætt við hana á netinu. Maðurinn ræddi við Sölva Tryggvason í fréttaskýringaþættinum Málinu.

Sölvi þóttist vera þrjár ungar stúlkur á stefnumótavefnum einkamál.is og átti maðurinn frumkvæðið að samskiptum við þær allar. Eftir að hafa rætt saman um hríð ákváðu maðurinn og það sem hann hélt að væri tólf ára stúlka að hittast. Tók þá Sölvi á móti honum.

Maðurinn samþykkti viðtal við Sölva um samskiptin við barnungar stúlkur. „Ég fer þarna inn á einkamál.is og er fyrsta árið, eitt og hálft ár, bara að spjalla við fólk á mínum aldri. Svo, eins og ég sagði, fer spennan að aukast um það leyti sem ég hætti að vinna. Maður lendir í ákveðinni krísu, félagslegri krísu,“ sagði maðurinn.

Í viðtalinu sagðist maðurinn hafa rætt við ungar stúlkur í um hálft ár en hafi aldrei átt í kynferðislegu sambandi við neina þeirra. Sölvi nefndi þá að í samtali við fjórtán ára stúlku hafi hann sagt að hún væri of kvenleg, hann hafi viljað stelpulegar stelpur. „Já, það er hárrétt hjá þér. Því ætla ég ekki að neita.“

Jafnframt minntist Sölvi á að maðurinn hafi verið meira en hrifinn af því að tólf ára stúlka hygðist hitta manninn ásamt níu ára frænku sinni. „Og þú spurðir hvort sú níu ára mætti vera með.“ Maðurinn sagðist ekki neita þessu en benti á að hann hafi síðar hætt við það og ekki viljað að sú níu ára kæmi með.

„Held að þetta sé spennufíkn“

Sölvi sagði greinilegt af samtölunum að maðurinn væri haldinn barnagirnd. Það vildi maðurinn hins vegar ekki samþykkja. „Ég held að ég sé ekki haldinn henni. Held að þetta sé bara spennufíkn.“

Þá ræddu þeir um barnaníðsmyndir sem maðurinn hafði undir höndum af íslenskum stúlkum og aðra menn í sömu stöðu. „Sá sem sendi mér þessa mynd kallar sig Gunnar. Hann býr í Vesturbænum, bak við elliheimilið Grund,“ sagði maðurinn um einn þeirra sem dreifðu myndum af íslenskum stúlkum.

Meðal þess sem Sölvi spurði um var hvað manninum þætti um þá barnaníðinga sem verið hafa í umræðunni. Og ekki stóð á svarinu: „Þetta eru veikir einstaklingar.“

Giftur og á börn og barnabörn

Maðurinn hefur verið giftur í 40-45 ár, en sagði sambandið af gömlum vana. Maðurinn á bæði börn og barnabörn. Hann sagðist bæði hugsa um eiginkonu sína og börnin þegar hann ræddi við ungar stúlkur á netinu. Og jafnframt að hann myndi fyrirlíta þann mann sem hefði uppi sömu tilburði við barnabörn sín.

Þá sagðist hann tilbúinn að taka við aðstoð. Spurði Sölvi þá manninn hvort hann yrði ekki fyrst að viðurkenna að vera haldinn barnagirnd. „Jú, ég skal gera það. En ég myndi aldrei leggjast með börnum.“

Viðtalið má sjá í heild hér að neðan.

Sölvi Tryggvason spyr manninn spjörunum úr.
Sölvi Tryggvason spyr manninn spjörunum úr. Skjáskot/Málið
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert