Sakar VG um ofstopa og ósannindi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er slæmt ef þingstörfum á að ljúka með orðhengilshætti, innihaldslausum frösum og tilraunum til að sverta pólitíska andstæðinga. Vonandi er þetta ekki til marks um þá pólitík sem Vinstri græn ætla að reka undir nýrri forystu,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, á heimasíðu sinni í dag. Þar bregst hann við gagnrýni frá Vinstrihreyfingunni - grænu framboði á tillögu framsóknarmanna að ákvæði í stjórnarskrá um þjóðareign á auðlindum sem byggð er á tillögu svonefndrar Auðlindanefndar.

„Nokkrir þingmenn Vinstri grænna brugðust við tillögunni með því að snúa innihaldi hennar á haus, skrökva til um hvað í tillögunni fælist og ráðast svo af ótrúlegum ofstopa á eigin ósannindi. Látið var eins og orðalagið væri uppfinning framsóknarmanna og að í tillögunni fælist einhvers konar einkavæðing náttúruauðlinda. Því var m.a. haldið fram að tillagan fæli það í sér að nýting auðlinda  skapaði eignarrétt á þeim. Þetta eru ekki aðeins ósannindi heldur var áhrifum ákvæðisins gjörsamlega snúið á haus,“ segir hann.

Sigmundur segir að ólíkt því sem haldið hafi verið fram sé beinlínis tekið fram að nýtingin á auðlindum skapaði ekki eignarrétt. „Þegar búið er greiða gjald fyrir heimild til að nýta auðlind nýtur hins vegar heimildin sem greitt var fyrir verndar en þó aðeins sem óbein eignarréttindi. Jafnframt er áréttað að heimildin sé tímabundin og henni megi breyta.“ Um hliðstætt fyrirkomulag væri að ræða og þegar einhver leigir hús og nýtur þar með ákveðinna réttinda.

Heimasíða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert