Geti áfram ákært vegna falspappíra

Embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum mælir gegn því að heimild til að ákæra hælisleitendur fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum verði felld úr útlendingalögum, líkt og gert er ráð fyrir í frumvarpi til nýrra útlendingalaga sem nú liggur fyrir Alþingi.

Bent er á að við mat á því hvort ákært skuli fyrir það hafi ávallt verið haft til hliðsjónar hvort viðkomandi uppfylli skilgreiningu á flóttamanni sem fram kemur í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Í tveimur nýlegum hæstaréttardómum reyndi einmitt á þetta ákvæði en þá komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að hælisleitendurnir, ungir menn, hefðu ekki leitt að því viðhlítandi rök eða lagt fram gögn um að lífi þeirra eða frelsi væri ógnað þannig að þeir teldust flóttamenn. Báðir sögðust þeir vera frá Alsír. Annar kvaðst vera tæplega 18 ára gamall en hinn 16 ára en niðurstöður rannsókna voru þær að þeir væru að öllum líkindum eldri. Annar mannanna var síðar handtekinn um borð í flugvél Icelandair en hinn komst sem laumufarþegi með skipi til Englands.

Í umsögn sinni um frumvarpið segir embættið að það sé óhjákvæmilegt að það fari fram mat á því hvort hælisleitendur uppfylli skilyrði sem kveðið sé á um í flóttamannasamningnum. „Þá skal því jafnframt haldið til haga að margir af þeim sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi hafa það ekki að markmiði að sækja um slíka vernd fyrr en við afskipti yfirvalda og í nokkur skipti hafa þeir dvalið í nokkra daga í landinu en verið stöðvaðir á leið úr landi og óska þá eftir alþjóðlegri vernd.

Refsingin fyrir að framvísa fölsuðum eða stolnum skilríkjum á landamærum er yfirleitt mánaðarlangt fangelsi og þurfa þeir að sitja af sér helminginn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert