Biskup fagnar lögfestingu barnasáttmála SÞ

Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, við setningu Leikmannastefnu í morgun.
Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, við setningu Leikmannastefnu í morgun. Af vef Þjóðkirkjunnar

Leikmannastefna þjóðkirkjunnar var sett í morgun í Grensáskirkju af biskupi Íslands, Agnesi M. Sigurðardóttur. Í ræðu sinni fagnaði hún meðal annars staðfestingu Íslands á Barnasáttmála SÞ og lagði áherslu á mikilvægi þess að að gæta hagsmuna barna við lagasetningu. „Það eru þau sem skipta mestu máli og þess vegna er löggilding þessa sáttmála mjög mikilvæg,“ sagði Agnes.

Biskupinn fjallaði einnig um þær aðferðir sem kirkjan hefur notað til þess að tryggja öryggi barna og unglinga sem taka þátt í starfi kirkjunnar og sagði að kirkjan skimaði nú allt starfsfólk í starfinu. „Nú hefur þessi skimun gengið lengra og nær líka til sóknarnefnda og sjálfboðaliða í kirkjunni. Hjá sumum sóknum hefur skimunin farið fram að öllu leyti, í öðrum sóknum bara hjá þeim sem eru fastir starfsmenn í barnastarfi og þeim sem þjóna þar, bæði á það við um leika og lærða,“ sagði Agnes.

Staða trúfélaga í landinu, gildi og staða kirkjuþings og staða æskulýðsstarfsins í þjóðkirkjunni er meðal þess sem rætt verður á Leikmannastefnu þjóðkirkjunnar í ár. Á hverju ári fjallar leikmannastefnan um ýmis mikilvæg og aðkallandi mál í safnaðastarfi þjóðkirkjunnar um land allt.

Hér má sjá dagskrá Leikmannastefnunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert